149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég held að fá verkefni sem við sinnum hér á þingi séu göfugri en það að vinna í átt að því að samfélagið verði það vel gert að hér þrífist ekki ofbeldi af neinni gerð. Þetta hefur ekki verið meginviðfangsefni stjórnmálanna lengi en samfélagið hefur þroskast og þingið með og sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, er mikilvæg varða á þeirri leið að koma okkur í átt að ofbeldislausu samfélagi.

Þetta mál hefur hlotið mikla umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd. Það er t.d. hægt að nefna að 35 umsagnir bárust við tillöguna og hún var rædd á 14 fundum allsherjar- og menntamálanefndar og við tókum á þá fundi ótal gesti þar sem hver og einn lagði mikið af mörkum til málsins. Það sem við stöndum með í höndunum er nefndarálit upp á 32 síður og því fylgja breytingartillögur upp á sex síður til viðbótar. Allt tel ég þetta vera yfir meðallagi þingmála sem hér koma í gegn en endurspeglar líka hve víðfeðmt og mikilvægt viðfangsefnið er.

Fyrir utan þakkir til nefndarmanna sem hafa setið þessa fundi og gefið af sér við meðferð málsins má ég til með að þakka öllum þeim gestum sem hafa lagt sitt af mörkum. Ég get ekki látið hjá líða að nefna ritara nefndarinnar sem hélt utan um alla þræðina og skilaði af sér þessum texta sem er ígildi einnar BA-ritgerðar að lengd. Þar nær ritarinn okkar, hún Elisabeth Partriarca Kruger, að halda utan um öll þau ólíku sjónarmið sem komu fram með nokkuð góðum hætti. Nefndarálitið gefur býsna glögga mynd af því sem átti sér stað í allsherjar- og menntamálanefnd.

Sú tillaga sem við höfum hér í höndunum á sér rætur í þremur ráðuneytum sem fóru að vinna saman árið 2014 á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þriggja ráðherra. Í framhaldinu var haldinn samráðsfundur með hagsmunaaðilum, stofnunum og félagasamtökum í janúar 2016 og sú vinna skilaði af sér þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.

Ég má til með að nefna sérstaklega þátt grasrótarhreyfinga þegar kemur að baráttunni gegn ofbeldi vegna þess að það hefur verið grasrótin sem opnar umræðurnar um umfang og eðli ofbeldis í samfélaginu. Það voru Rauðsokkurnar og Kvennalistinn sem komu með þessi mál af afli á vettvang stjórnmálanna hér fyrir 40–50 árum og það hafa verið samtök á borð við Kvennaathvarfið og Stígamót sem hafa vakið sérstaklega athygli á kynbundnu ofbeldi og kynferðisofbeldi.

Svo höfum við þurft að víkka rammann ár frá ári þannig að ólíkar gerðir ofbeldis komi fram í dagsljósið, ofbeldi gegn börnum, heimilisofbeldi og ofbeldi gegn ýmsum jaðarsettum hópum á borð við fatlaða, aldraða eða hinsegin fólk. Ekkert af þessu hefur verið sjálfsagt og allt hefur þetta byggt á vinnu grasrótarhreyfinga. Sú tillaga sem við ræðum hér er unnin á tímum þar sem nýjustu grasrótarhreyfingarnar hafa verið að störfum og þar má nefna Druslugönguna eða óformlegri sjálfsprottin átök á borð við Free the nipple sem vakti athygli á því sem við köllum í dag stafrænt kynferðisofbeldi en hét í árdaga hefndarklám. Það er rétt að nefna það vegna þess að í greinargerð þingsályktunartillögunnar er enn notast við orðið hefndarklám sem við höfum horfið frá á síðustu árum og tölum frekar um stafrænt kynferðisofbeldi. Það endurspeglar ágætlega hversu kvikur þessi málaflokkur er nú í samtímanum að hugtök eru að breytast ár frá ári og við erum ekki endilega með gríðarlega stofnanabundna grasrótarhreyfingu heldur sjálfsprottin átök þar sem þörfin kallar einfaldlega á viðbrögð. Eitt dæmi um það væri #metoo-hreyfingin sem vakti athygli á kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni hér árið 2017.

Svo væri hægt að nefna átakið á Instagram sem er undir heitinu „Fávitar“ notað til að benda á markaleysi karlmanna í garð barnungra stúlkna á netinu þar sem þeir eru að falast eftir nektarmyndum eða einhverju öðru frá konum og oft mjög ungum stúlkum. Það sem einkennir kannski alla vinnu við þessa tillögu er hversu sammála við erum þvert yfir flokkslínur um þá miklu nauðsyn sem er á aðgerðum.

Það að berjast gegn ofbeldi á þann hátt sem lagt er til í tillögunni hefði fyrir ekki mörgum áratugum þótt vera mjög róttækt í ýmsum kimum stjórnmálanna en þykir nú sjálfsagt mál. Þar spilar kannski inn í að við áttum okkur núorðið betur á umfangi ofbeldis sem samfélagsmeins. Inn á þetta er komið í nefndarálitinu þar sem t.d. er sagt frá því að rannsóknin Áfallasaga kvenna hafi í vetur sýnt fram á að fjórðungur kvenna hefur orðið fyrir nauðgun eða tilraun til nauðgunar á lífsleiðinni. Sama hlutfall hefur verið beitt líkamlegu ofbeldi.

Rétt áður en við afgreiddum tillöguna úr allsherjar- og menntamálanefnd komu tölur frá UNICEF sem sýndu að 16,4% barna verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi áður en þau ná 18 ára aldri. Það eru skuggalegar tölur og fyrir áhugafólk um skuggalegar tölur eru hér í fylgiskjali við nefndarálitið birtar tölur upp úr rannsókninni, Heilsa og líðan Íslendinga frá árunum 2012 og 2017 sem landlæknisembættið hefur látið framkvæma á fimm ára fresti.

Þetta eru tölur sem hafa ekki birst með þessum hætti áður. Þær leiða í ljós að ofbeldi er gríðarlega umfangsmikið vandamál. Á grundvelli þessara upplýsinga náði allsherjar- og menntamálanefnd mjög auðveldlega að sameinast um að keyra þetta mál áfram. Það sem kannski skorti á áætlunina sem tengist beint þessu mati á umfangi er áhersla á rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði, leiðir til að styrkja aðkomu háskólasamfélagsins að því að meta umfang en líka að sjá hvernig best sé að bregðast við ofbeldi.

Við nefnum í nefndarálitinu nokkur dæmi um tilraunaverkefni hjá lögreglunni sem eru unnin í samstarfi við háskólasamfélagið, fræðasamfélagið á nokkrum svæðum, kannski sérstaklega varðandi þjónustu við þolendur kynferðisbrota hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Háskólinn á Akureyri hefur verið þeim innan handar við að þróa nýtt verklag til að hjálpa þolendum að vinna betur úr því áfalli sem fylgir skýrslutöku eftir kynferðisbrot. Þess vegna höfum við lagt nokkra áherslu á að bæta þessum aðilum, háskólasamfélaginu sem sagt, inn í áætlanir sem samstarfsaðilum.

Þessi áætlun er fyrsta heildstæða áætlunin um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess í íslensku samfélagi. Það er mikilvægt að við lítum ekki á hana sem neins konar endapunkt. Hún hefur snertifleti við ýmislegt annað sem er í gangi í samfélaginu og annars staðar í stjórnkerfinu og hluti af þeirri gagnrýni sem barst inn á borð allsherjar- og menntamálanefndar sneri einmitt að því að ákveðnir hlutir væru ekki dekkaðir af þessari áætlun. Það voru gjarnan atriði sem eru til skoðunar á öðrum vettvangi. Þar má t.d. nefna baráttuna gegn mansali. Í þessari áætlun er tekið á þjónustu við þolendur mansals en baráttan gegn mansali á sér sjálfstæða áætlun hjá dómsmálaráðuneytinu sem skiptir máli að tali vel við þessa áætlun en meginþunginn á löggæslu hvað snertir mansal er eðli máls samkvæmt þar.

Annað dæmi er endurskoðun á meðferð kynferðisbrotamála sem eru í sérstökum starfshópi hjá forsætisráðuneyti þessa dagana og er þess vegna ekki í þessari áætlun. Það sem skiptir hins vegar máli, þegar vinnan við framkvæmd þessarar áætlunar fer af stað, er að ná vel utan um allt það sem er í gangi annars staðar í stjórnkerfinu þannig að þessi áætlun geti verið miðpunktur þess sem er gert í baráttunni gegn ofbeldi.

Annað sem kom fram í mörgum umsögnum var gagnrýni á ónógt samráð við hagsmunaaðila við undirbúning áætlunarinnar og að hluta til getur það skýrst af þeim langa meðgöngutíma sem var á áætluninni. Það var undirbúningsfundur í janúar 2016 en tillagan kemur til þings tveimur og hálfu ári síðar. Þetta rof vegna þessa langa tíma hefur ekki verið til að láta fólk upplifa sérstaklega mikið samráð í ferlinu. Það er mikilvægt að nú þegar við erum komin með áætlunina á koppinn verði samráð formgert með einhverjum hætti.

Raunar er það ein af aðgerðunum að haldinn verði árlegur landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og í nefndarálitinu leggjum við áherslu á að þessi fundur sé mikilvægur vettvangur til þess að allir hagsmunaaðilar, öll þessi grasrótarsamtök, geti komið saman með stjórnsýslunni, háskólasamfélaginu og öðrum stofnunum og framkvæmdarvaldinu til þess að greina m.a. hvað er efst á baugi, hvaða nýju vandamál og áskoranir þarf að takast á við.

Baráttan gegn ofbeldi er, svo að ég sletti, virðulegur forseti, „work in progress“. Þetta er síbreytilegt verkefni sem er alltaf að vaxa og þessi áætlun á ekki vera það meitluð í stein að hún fylgi ekki þörfinni. Annað sem gjarnan var rætt í umsögnum og umfjöllun nefndarinnar var fjármögnun áætlunarinnar. Flestir gestir voru sammála um að það heildarfjármagn sem er ætlað til aðgerða dugi skammt. Um er að ræða í kringum 300 milljónir á því tímabili sem um ræðir. Mestanpart kemur það fjármagn frá félagsmálaráðuneytinu en það skiptir kannski máli í þessu samhengi, eins og við þurfum að líta til allra hinna áætlananna sem eru í gangi og eru skyldar þessari áætlun, að líta á öll hin verkefnin sem eru í gangi og átta okkur á því að það fjármagn sem eyrnamerkt er í þessari áætlun er ekki allt það fjármagn sem hið opinbera leggur í baráttuna gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Þar að auki eru ýmsar aðgerðir í áætluninni sem er ekkert ólíklegt að muni, þegar á hólminn er komið, kalla á endurskoðaða kostnaðaráætlun. Það má t.d. nefna þennan landssamráðsfund sem ég ræddi hér rétt áðan um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þar er áætlaður kostnaður 1 milljón á hvern fund. Það þekkja allir sem hafa haldið stórar ráðstefnur að það þarf fátt að breytast til að kostnaðurinn geti hlaupið mikið til eða frá. Þá er hægt að nefna aðgerð B.3, um heimildir til að afla upplýsinga úr sakaskrá ríkisins, sem er metin kostnaðarhlutlaus. Hún fellur sem sagt innan útgjaldaramma ráðuneytanna sem um ræðir enda snýst sú aðgerð bara um að finna leiðina að því að tryggja aðgang að sakaskrá þeim sem hann þurfa. Síðan þegar sú leið er fundin verður væntanlega ráðist í einhverja framkvæmd sem má reikna með að hafi kostnað í för með sér. Það sem skiptir máli í þessu er að ábyrgðaraðilar aðgerðanna líti á þau markmið sem ætlað er að ná og vinni síðan innan sinna ráðuneyta að því að fjármagn til þessara verkefna sé í samræmi við þau markmið. Við í nefndinni leggjumst því ekki í einhverjar bókhaldskúnstir til að finna út hvort kaffibrauð eigi að vera á árlegum landssamráðsfundi eða hádegismatur, hvort bjóða eigi 100 manns eða 300. Þetta látum við í hendur þeirra aðila sem framkvæma áætlunina á næstu árum.

Þá var okkur bent á ýmis atriði sem ekki væru í áætluninni. Umfjöllun um þau atriði er hér aftast í nefndarálitinu og við beinum því í raun til þeirra sem framkvæma áætlunina að skoða þessi atriði fyrir þá næstu. Þetta geta verið viðfangsefni árlegu landssamráðsfundanna og þar erum við að tala um atriði eins og tengsl áfengis eða vímuefna og ofbeldis, öryggi á skemmtistöðum, ofbeldi gegn frelsissviptum einstaklingum. Það er af ýmsu að taka. Við ætlum ekki að láta eins og þessi áætlun nái að dekka allt hér og nú en hún er skref í þá áttina.

Virðulegur forseti. Eins og gefur að skilja get ég ekki í þessari stuttu ræðu farið yfir alla liði og allar breytingartillögur nefndarinnar. Mig langar að vekja sérstaklega máls á nokkrum. Fyrst vil ég nefna að þetta sex síðna breytingarskjal nefndarinnar er jafn langt og raun ber vitni mestanpart af tæknilegum ástæðum. Ráðuneytum var skipt upp eftir að áætlunin var lögð fram og svo erum við að stilla af hvaða samstarfsaðilar eru á hverjum stað og við erum að samræma þetta. Stærstu breytingarnar sem við leggjum til myndi ég segja að væru fimm eða sex talsins og vil ég nefna þær.

Fyrst vil ég ræða aðeins einn aðgerðarlið sem nefndin fjallaði mikið um þar sem við leggjum engar sérstakar breytingar til, aðeins orðalagsbreytingu, en það er liður A.6 sem fjallar um kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun í grunn- og framhaldsskólum. Umfjöllunin um þennan þátt leiddi í ljós að einhverra aðgerða er þörf utan þessarar áætlunar. Þetta kom sérstaklega skýrt fram hjá ungmennum sem við fengum á fund nefndarinnar og því fólki sem starfar með ungu fólki í menntakerfinu og félagsmiðstöðvum og öðru slíku, að kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun og samskipti einstaklinga, t.d. samþykki og mörk, þurfi að efla mjög mikið á öllum skólastigum og skoða hvort ekki þurfi að færa hana neðar í árganga. Það teljum við að geti vel rímað við þá endurskoðun á aðalnámskrá sem farin er af stað á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis og við fjöllum hér nokkuð um þau sjónarmið sem fram komu.

Þá langar mig að nefna lið A.11 sem er nýr liður inn í áætlunina frá því sem ráðherra lagði upphaflega til. Liður A.11 fjallar um stofnun miðstöðvar um ofbeldi gegn börnum og kemur í raun til sem viðbragð við skýrslu UNICEF um stöðu barna frá maí sl., sem ég nefndi áðan. Þetta er miðstöð undir forystu félagsmálaráðuneytisins sem á að hafa það hlutverk að halda utan um upplýsingar, rannsóknir, tölfræði og fleira er varðar ofbeldi gegn börnum. Það kom í ljós í úttekt UNICEF að upplýsingar vantar. Þegar við erum að tala um jafn alvarlegan hlut og ofbeldi gegn börnum er ólíðandi að aðgerðir líði fyrir það að upplýsingar séu ekki til staðar og því leggjum við til þessa aðgerð til viðbótar.

Þá vil ég nefna aðgerð B.3 um heimildir stofnana og félagasamtaka til að afla upplýsinga úr sakaskrá ríkisins. Þetta atriði vil ég nefna vegna þess að þörfin á þessu verkefni hefur komið fram, ekki bara í umfjöllun um þetta mál heldur á að giska þrjú eða fjögur önnur mál hjá allsherjar- og menntamálanefnd í vetur. Stofnanir og félagasamtök sem starfa með börnum, hvort sem það eru skólar, íþróttafélög, skátahreyfingin eða hvað það er, eru að kalla eftir miklu liprara kerfi til að geta kallað eftir upplýsingum úr sakaskrá til að tryggja með fullnægjandi hætti öryggi þeirra barna sem þar eru með því að kanna sakaskrá starfsmanna. Þessi könnun er mjög tímabær og eftir henni er mikið kallað.

Þá vil ég nefna aðgerðarlið B.4 sem í tillögu ráðherra heitir sáttamiðlun í sakamálum og vakti ekki mikla lukku hjá umsagnaraðilum við fyrstu sýn. Mjög skiptar skoðanir eru uppi um það hvort yfir höfuð sé heppilegt að beita einhverju sem heitir sáttamiðlun í ofbeldismálum. Sáttamiðlun gefi til kynna að tveir aðilar setjist niður og sættist og því er ekki að heilsa í ofbeldismálum þó að mögulega sé hægt að finna því stað í einhverjum öðrum sakamálum. Þegar við ræddum málið við ráðuneytið kom í ljós að það var sammála þessu. Ráðuneytið er að skoða sáttamiðlun í víðu samhengi varðandi annars konar sakamál en ofbeldismál.

Við leggjum til að hér verði talað um uppbyggjandi réttvísi í sakamálum þar sem sáttamiðlun getur verið einn af þáttunum. Aðalatriðið er að þolandi upplifi að réttlætinu sé fullnægt. Það sem þarf að skoða hinum megin er kannski sérstaklega þegar um er að ræða unga gerendur, að þá verði leitað leiða til að stýra þeim í rétta átt samhliða því að einhvers konar refsing eigi sér stað þannig að hægt sé að grípa gerendur og beina þeim á rétta braut sem fyrst.

Þá vil ég nefna rétt að lokum lið C.14 sem er annar nýr liður og ber titilinn endurskoðun aðgerðaáætlunar þessarar enda teljum við mjög mikilvægt að þessi áætlun sé ekki endapunktur heldur verði í formlegu ferli, hún verði tekin upp og endurskoðuð og lögð fram, að áður en þessi hér fellur úr gildi verði lögð fram ný áætlun með enn metnaðarfyllri markmiðum og enn meira fjármagni.