149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[17:58]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir svarið. Mig langar að spyrja hann í framhaldi af því hvort hann sé ekki sammála mér að það sé mjög mikilvægt að tryggja tilveru samtaka eins og Aflsins sem sinnir gríðarlega mikilvægu starfi, ekki bara fyrir Akureyri heldur fyrir Norðurland allt og jafnvel Austfirði.

Ég veit að hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég mikilvægi þess að þjónustan sé eins nálægt þolandanum og mögulegt er og þess vegna mikilvægt að svona þjónusta eins og er í boði þarna sé sem víðast og í rauninni sorglegt að Aflið sem hefur starfað í þó nokkurn tíma sé ekki komið á föst fjárlög, samanber Stígamót, eða a.m.k. komið með langtímaþjónustusamning við ráðuneytið, eins og hv. þingmaður nefndi.

Ég rek augun í að hér situr formaður fjárlaganefndar. Ef ég kynni að blikka almennilega með öðru auganu myndi ég gera það núna til að vekja athygli á mikilvægi þessa máls. Ég vona að hann taki það til sín þótt ég blikki ekki nákvæmlega.

En ég ætlaði að tala við hv. framsögumann, ekki formann fjárlaganefndar, og mig langar að grípa hér aðeins niður. Ég heimsótti þjónustumiðstöðina á Akureyri nýverið og þar nefndi forstöðumaður einmitt við mig það mikilvæga mál sem er mat á þörf fyrir kvennaathvörf á landsbyggðinni og taldi að jafnvel þótt þau væru ekki formlega tekin til starfa einu sinni þegar ég fór í heimsóknina fyndi hún þegar þörf fyrir þau. Mér þætti gaman að heyra hv. framsögumann málsins fabúlera aðeins um mikilvægi þessa.