149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[18:03]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni kærlega fyrir hans ítarlegu og góðu yfirferð yfir þetta mál sem er vægast sagt umfangsmikið og tekur á ýmsum þáttum sem ég mun nefna í ræðu. En ég hnaut um og mig langaði sérstaklega að spyrja hv. þingmann út í þá umræðu sem var í allsherjar- og menntamálanefnd um sáttamiðlun í sakamálum. Hv. þingmaður talaði um að fulltrúar dómsmálaráðuneytis hefðu komið og talað um að harla tilgangslítið væri að hafa sáttamiðlun í ofbeldismálum í nánum samböndum, eða að það væri flóknara að gera það þar, að það gæti verið flókið mál af því að valdaójafnvægi væri á milli einstaklinganna.

Af því tilefni langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það hafi eitthvað verið rætt, þar sem um er að ræða sama ráðuneytið og sömu fulltrúa og fjalla um barnalög, að fella niður kröfu um sáttamiðlun í forsjármálum, lögheimilismálum, umgengnismálum milli foreldra þar sem um er að ræða ofbeldi þeirra á milli eða ofbeldi gegn barni.