149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að leiðrétta, ég hef greinilega ekki komið því alveg nógu skýrt frá mér að það var ekki dómsmálaráðuneytið þannig séð sem sagði að ekki væri hægt að nota sáttamiðlun í þessum málum, heldur endurspeglar þetta þá umfjöllun sem birtist í umsögnum og hjá öllum aðilum sem komu á fund nefndarinnar. Það eru skiptar skoðanir, hvort sem við lítum á fræðasamfélagið eða grasrótarsamtökin sem komu til okkar. Almennt var fólk skeptískt á sáttamiðlun sem færa leið í grófustu tilvikum, skulum við segja, en greindi kannski helst á um það hvenær hún færi að eiga við, hvar komið væri á nógu lygnan sjó til að sáttamiðlun nægði til að komast saman í land og báðir aðilar gætu skilið við málið á þann hátt að þeir væru sjálfir sáttir við málalok en ekki þannig að þeir sættust hvor við annan.

Þolendavæn málalok var þetta stundum nefnt. En uppbyggileg réttvísi er kannski það sem nær þessu betur þar sem þetta snýst að hluta til um að byggja gerendur upp eftir málalokin. Varðandi það að fella niður kröfu um sáttamiðlun í málum sem snerta forsjá barna og slíkt man ég ekki eftir því að við höfum rætt það enda væri það kannski aðeins út fyrir það verkefni sem var hér, og við höfum svo sem ýmislegt annað að skoða.