149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[18:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég er að mörgu leyti sammála því og skil vel að þetta hafi komið fram í máli þeirra hagsmunaaðila, félagasamtaka eða fulltrúa sem þekkja hvað best til á vettvangi ofbeldis, þekkja til málefna þolendaofbeldis, að þar hafi verið talað um hversu mikilvægt er að öll slík sáttameðferð sé ávallt á forsendum brotaþola. Þetta á allt að snúast um það, að við séum fyrst og fremst að hugsa út frá því hvað sé brotaþola fyrir bestu. Þess vegna spurði ég líka út í þetta og skil vel að það sé flóknara í stærri málum. En það er samt þannig að brotaþolar eru eins misjafnir og þeir eru margir. Sumum er hreinlega mjög mikilvægt að fá viðurkenningu beint frá geranda um að hann eða hún hafi brotið á sér.

Ég skil alveg hugmyndina um sáttamiðlun í sakamálum en langar líka að heyra hvort eitthvað hafi verið rætt um sáttamiðlun þegar um er að ræða ofbeldi í nánum samböndum, ofbeldi foreldris gagnvart barni. Það er ekki verið að tala um sættir, kannski meira um þerapíu. (Forseti hringir.) Var það eitthvað til umræðu þegar um er að ræða heimilisofbeldi sem beinist gegn barni?