149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála því sem þingmaðurinn nefnir, að forsendurnar þurfa að vera brotaþolans í því hverjar málalyktir eru. Það er einmitt það sem rak okkur áfram í því að breyta markmiði þessa aðgerðarliðar sem snerist um sáttamiðlun. Markmiðið var að sáttamiðlun yrði nýtt í auknum mæli. Það sem við leggjum til í staðinn er að víkka þetta út. Sáttamiðlun á mögulega við í einhverjum tilvikum, en að auka hana getur ekki verið sjálfstætt markmið þessarar aðgerðar heldur að uppbyggileg réttvísi verði það sem er praktíserað. Í einhverjum tilvikum geti það verið sáttamiðlun.

Hv. þingmaður nefndi dæmi um ofbeldi foreldris gegn barni sem var einmitt rætt í nefndinni og var nefnt sem dæmi um tilvik þar sem sáttamiðlun geti mögulega verið nauðsynleg og eina leiðin fyrir fólk að halda áfram í fjölskyldusambandi við geranda. Það getur verið mjög afdrifarík ákvörðun að draga foreldri sitt fyrir dóm. En ef það er eitthvert annað úrræði sem skilar þolanda sömu lúkningu í málinu, hvort sem það heitir sáttamiðlun eða hvað annað, er það eitthvað sem okkur var einmitt bent á að mætti skoða. Það verður væntanlega eitt af því sem verður tekið til skoðunar undir þessum aðgerðarlið.