149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[18:12]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta er býsna viðamikið og mikilvægt mál sem við erum að fjalla um, aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Ég vil byrja á því að þakka hv. framsögumanni, Andrési Inga Jónssyni, fyrir framsöguna og vinnu hans í kringum málið og tek undir það að ritari allsherjar- og menntamálanefndar vann mjög gott starf.

Ofbeldi í öllum myndum er alvarlegt samfélagslegt mein sem við þurfum að berjast gegn með öllum tiltækum ráðum. Í þessari áætlun er að finna mjög mörg atriði sem geta skipt þar máli.

Ég undirritaði nefndarálitið með fyrirvara ásamt tveimur öðrum nefndarmönnum og vil byrja á því. Framsögumaður fór nokkrum orðum um fjármögnunina, réttilega, og benti á að hún væri kannski ekki fullnægjandi en taldi ekki skynsamlegt að nefndin færi í einstök atriði eða endurskoðaði hvaða fjármuni þyrfti til. Ég tek í sjálfu sér undir að það er ekki hægt um vik fyrir nefndina að fara að greina einstök verkefni nákvæmlega og kostnaðarmeta o.s.frv. Þessi áætlun öll er mjög metnaðarfull og það er vel og mjög gott og markmiðin eru göfug og mörg af þeim eru háleit, bæði um fjölda verkefna og væntan árangur af þeim. En hins vegar held ég, og það kemur fram í fyrirvaranum, að almennt talað sé svolítið óheppilegt fyrir þá sem ýmist eiga að standa að verkefnunum eða í hvers þágu verkefnin eru unnin að vekja kannski vonir og væntingar þeirra sem reynist síðan erfitt að standa undir. Ég held að það sé ekki heppilegt að valda svona togstreitu og óánægju þegar menn fara að lesa sér til um hvað á að gera og að hverju er stefnt, en síðan skortir mjög á fjármunina.

Það er líka rétt að minnast á það, eins og kom fram í máli hv. framsögumanns, að það eru u.þ.b. 293 milljónir sem dreifast á fjögur ár sem áætlunin gerir ráð fyrir. En það er líka vert að taka eftir því að mörg verkefnin eru sögð innan ramma ráðuneytanna eða fjármálaáætlunar. Auðvitað eru þessi verkefni misstór, en það vekur manni vissar áhyggjur að þó svona stór hluti verkefnanna eigi að rúmast innan fyrirliggjandi ramma. ´Áhyggjur mínar af þessu hafa ekki minnkað í ljósi þess að nú er verið að boða nýja fjármálaáætlun og það liggur mjög í loftinu að þar þurfi að beita aðhaldi, ég ætla að orða það varlega. Þá hefur reynslan oft sýnt okkur að verkefni af þessu tagi, sem stundum eru kölluð hin mýkri málefni, verða svolítið fyrir barðinu á hagræðingu eða niðurskurði. Ég held að það sé rétt og gott fyrir okkur hv. þingmenn að vera vel á verði þegar fjármálaáætlun kemur, að þarna sé borð fyrir báru til að geta sinnt þessum verkefnum og þau líði ekki fyrir það sem þarf hugsanlega að gera í fjármálaáætlun.

Ofbeldi er alvarlegt mein. Það birtist með ýmsum hætti í samfélaginu og er verkefni sem við þurfum með öllum mögulegum hætti og kröftum að berjast gegn. Það þarf að gera með margvíslegum aðgerðum.

Í nefndarálitinu, eins og fram kom í framsögunni, er birt könnun þar sem spurt er um heilsu og líðan. Þar kemur fram og er ógnvekjandi að horfa upp á, og hliðstæðar tölur má lesa úr gögnum frá lögreglunni um kynbundið ofbeldi, að 30% kvenna á aldrinum 18–44 ára segjast hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Það er mjög sláandi tala og gegn þessu þarf að vinna.

Mig langar til að drepa á nokkur atriði fyrir utan fjármálin sem ég ætla ekki að gera frekar að umtalsefni. Hér er fjallað talsvert um #metoo-hreyfinguna og þau áhrif sem sú bylgja hefur haft og fleiri sjálfsprottnar hreyfingar til að vekja athygli á þessum málum. Það er gríðarlega mikilvægt að svona sjálfsprottnir hópar láti til sín taka og að á þá sé hlustað. Ég er líka ánægður með að nefndin tekur mjög undir það. Ég ætla að leyfa mér að vitna, með leyfi forseta, í nefndarálitið þar sem verið er að fjalla um #metoo-hreyfinguna í lok þess kafla:

„Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að bregðast við umfangi áreitninnar og ofbeldisins sem var afhjúpað í #metoo-hreyfingunni, ekki síst á vinnumarkaðnum, og áréttar um leið að um er að ræða umfangsmikið verkefni, sem þarf m.a. að fela í sér markvissa fræðslu um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.“

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að hægt sé að fræða fólk og leiðbeina, bæði með almennri upplýsingu, en ekki síst inni í þeim kerfum sem fjalla um öll þessi mál.

Það er aðgerð í B-kafla, Viðbrögð – verklag og málsmeðferð, aðgerð B.1 sem ég held að sé mjög mikilvæg. Þar er talað um að stuðla að menntun um ofbeldismál fyrir þá sem starfa innan réttarvörslukerfisins. Þegar við tölum um réttarvörslukerfið er verið að tala um allt frá lögreglu sem kemur á vettvang og rannsóknir mála, meðferð fyrir dómstólum og í heilbrigðiskerfi og hvar sem brotaþolinn eða málið fer í gegn, þar til dómur fellur. Það er gríðarlega mikilvægt verkefni að takast á við þetta. Mig langar að nefna í þessu samhengi stórt atriði sem snýr að samskiptum kynjanna og hvað má og hvað má ekki og hvar hin eðlilegu mörk liggja og hvenær eðlileg samskipti, eðlilegt kynlíf, breytast úr því að vera það og verða ofbeldi. Þessi mörk er mjög mikilvægt að setja með skýrum hætti.

Ég leyfi mér að nefna í þessu samhengi breytingar sem voru gerðar á hegningarlögum fyrir rúmu ári síðan þar sem skilgreiningu nauðgunar var breytt og samþykki er sett í forgrunn og kveðið á um það með skýrum hætti. Sú lagabreyting ein og sér mun ekki gjörbreyta meðferð nauðgunarmála og mun ekki heldur verða til þess að sakfellingar muni t.d. snaraukast eða að það verði allt í einu einhvern veginn miklu auðveldara að klára mál af því tagi. Eftir sem áður þarf að sanna það sem ákært er fyrir og meginreglan um að sakborningur sé saklaus þar sekt er sönnuð heldur auðvitað. En engu að síður er þetta yfirlýsing frá löggjafanum um það hver andi laganna er. Það er mjög mikilvægt að andi laganna skili sér út í samfélagið og hann getur orðið grundvöllur að góðri umræðu og breyttri framkvæmd mjög víða.

Það má segja að ákvæði hegningarlaga um nauðgun eins og það var hafi að mörgu leyti verið torlesið fyrir almenning eða þá sem ekki voru lögfróðir, hvað það er nákvæmlega sem felst í því að nauðga. En með þeim breytingum sem voru gerðar liggur alveg ljóst fyrir að kynferðismök án samþykkis eru nauðgun og þetta er sagt mjög berum orðum. Þetta skiptir máli og þetta er mikilvæg undirbygging á mörgum sviðum fyrir það að hægt sé að tala skýrt um þessa hluti.

Mig langar að nefna í þessu samhengi að sá sem hér stendur hefur lagt fram þingsályktunartillögu, sem að vísu hefur ekki enn þá komist á dagskrá þingsins en liggur engu að síður fyrir, sem varðar að hluta til það sem fjallað er um í þeirri áætlun gegn ofbeldi sem við erum að ræða. Þar er tekið með meira afgerandi hætti en áætlunin gerir ráð fyrir á því að beina kröftum inn í réttarvörslukerfið til þess að fræða þar og veita til þess fjármuni. En tillagan gengur líka talsvert lengra vegna þess að þar er líka talað um menntakerfið og öll skólastig þar, bæði nemendur og kennara. Síðast en ekki síst er lögð mikil áhersla á að það sé nýttur sá farvegur sem felst í frjálsum félagasamtökum sem láta sig þessi mál varða, í fjölmiðlum og öðrum stofnunum. Þar er líka gert ráð fyrir því að verja umtalsvert miklu fjármagni í slíka vegferð. Þar var haft til hliðsjónar að nágrannar okkar, eða nágrannar er kannski fulllangt gengið, en bræður okkar og systur sem búa í Svíþjóð, skömmu eftir að Íslendingar breyttu sínum hegningarlögum og tóku upp þessa samþykkisreglu, gerðu það líka. En þeir ákváðu að fylgja þeirri lagabreytingu eftir með miklu átaki sem beinist einmitt inn í réttarvörslukerfið, inn í skólakerfið. Það er til þess að fylgja eftir þeirri yfirlýsingu sem felst í breyttum lögum um að það eigi að taka á og meðhöndla þessi mál með öðrum hætti og allir skilji út á hvað ofbeldið gengur. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé gert.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hugsum í þeim farvegi að það sé mjög mikilvægt að koma þessum skilaboðum inn í alla þætti samfélagsins. Svíar verja mjög miklum fjármunum í það verkefni. Í tillögunni sem ég ásamt fleiri hv. þingmönnum hef lagt fram er tekið mið af því hvað Svíar gera, en við deilum því svolítið niður og tökum tillit til höfðatölu og þess að við erum miklu minna samfélag. Engu að síður er varlega áætlað að í svona verkefni þurfi a.m.k. 150 millj. kr. á þremur árum ef það á að rísa undir nafni. Ég segi þetta til að setja í samhengi við þá fjármögnun sem er að finna í áætluninni sem á að vinna gegn ofbeldi, en samt sem áður er þetta svið miklu þrengra en áætlunin gerir ráð fyrir.

Hér var minnst á atriði sem ég hef svolítinn áhuga á og rætt er um undir lið B.4, Sáttamiðlun í sakamálum. Orðið sjálft, sáttamiðlun, og það kom aðeins fram í máli framsögumanns og síðan í andsvari hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, felur í sér samkvæmt orðsins hljóðan að reynt sé að koma á sáttum milli aðila. Ég hef aðeins kynnt mér sáttamiðlun, þ.e. eiginlega ekki sáttamiðlun, nú ætla ég nefnilega að breyta aðeins um orðfæri, heldur það sem kallað er uppbyggjandi réttvísi. Það hugtak kemur að vísu fram í nefndarálitinu og er ágætisþýðing eða er að einhverju marki þýðing á því sem heitir á ensku, með leyfi forseta, „restorative justice“. Það má segja að uppbyggjandi réttvísi geti átt við í sumum tilvikum þar sem sjónum er beint að bæði brotaþola og geranda. Eins og þýðingin gefur tilefni til er verið að reyna að byggja upp.

Í alvarlegum kynferðisbrotamálum er uppbyggjandi réttvísi alls ekki hugsuð sem neins konar sáttamiðlun af neinu tagi eða að brotaþolinn sættist með einhverjum hætti við ofbeldismanninn eða fyrirgefi honum á nokkurn einasta hátt. Þetta er hins vegar hugsað til þess að vera hluti af því að brotaþolinn nái að jafna sig eftir brot að því marki sem það er hægt. Það er einmitt gert með því, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom inn á, að brotamaðurinn eða ofbeldismaðurinn horfist í augu við glæp sinn. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir brotaþolann að fá viðurkenningu á því að hann hafi verið beittur ofbeldi. Og að einhverju marki felst líka í þessu að fá það viðurkennt að ofbeldið sem átti sér stað og málið snýst um hafi á engan hátt verið sök brotaþolans. Það er ofbeldismaðurinn sem ber fulla ábyrgð á broti sínu. Þannig á það að vera. En það getur líka verið uppbyggjandi fyrir ofbeldismanninn þegar hann situr augliti til auglitis við fórnarlamb sitt, eða brotaþolann, og skynjar hvaða afleiðingar brot hans hefur haft. Það getur líka hjálpað honum til að horfast í augu við sjálfan sig (Forseti hringir.) og ná hugsanlega einhverjum bata.