149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[18:33]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er geysilega yfirgripsmikið mál, enda varðar það öll hörðu málin í samfélaginu. Þetta varðar ekki mjúku málin heldur hörðu málin í samfélaginu. Ég vil byrja á því, og geri eins og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson, að þakka hv. framsögumanni, hv. þm. Andrési Inga Jónssyni, fyrir hans góðu vinnu í málinu og ekki síður nefndarritaranum fyrir framúrskarandi vinnu við að útbúa þetta nefndarálit sem ég skrifa undir með sams konar fyrirvara og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson gerir varðandi fjármögnun, sem ég vík kannski örlítið að á eftir.

Fyrst vil ég segja að mjög mikilvægt er að Alþingi fáist yfir höfuð við þetta mál og lýsi því yfir að ofbeldi í hvers kyns mynd sé óþolandi samfélagsmein sem verður með öllum ráðum að taka á. Það er í sjálfu sér mjög mikilvægt, dýrmætt og gott. Það fer ekki á milli mála að þessi áætlun er geysilega metnaðarmikil. Hún er í 28 liðum og allir eru þeir liðir mjög mikilvægir.

Margt er þar sem má fetta fingur út í, ekki síst kannski það að samráð hefði mátt vera betra við samninguna við ýmsa þá hópa sem málið varðar, en við hljótum að binda vonir við að úr því verði bætt þegar áætluninni verður framfylgt og að henni verði framfylgt í nánu samráði við þá hópa.

Lykilorðið finnst mér kannski vera það sem er rauði þráðurinn og gegnumgangandi og er mjög mikilvægt, þ.e. fræðsla og upplýsing, að við fræðumst um ofbeldi, að ofbeldi sé ekki leynt mein heldur að við þrýstum því út í dagsljósið, við skoðum það og við skoðum orsakir þess og birtingarmyndir. Líka hitt að tekið sé á ofbeldi með fræðslu og upplýsingu. En mikilvægast er að komið sé í veg fyrir ofbeldi með fræðslu og upplýsingu. Þetta síðastnefnda varðar ekki síst þá sem beita ofbeldi og kunna að vera í hættu að beita ofbeldi, kunni að vera útsettir fyrir því af félagslegum eða öðrum orsökum. Það er ákaflega mikilvægt að ná til þess hóps í tíma með fræðslu og upplýsingu.

Þá verður ekki undan því vikist að nefna að ungt fólk og alveg sérstaklega ungir karlmenn, barnungir karlmenn, börn, fá innrætingu úr klámi og klámefni sem er mjög mikið á boðstólum. Þeir fá innrætingu um að þeir skuli beita ofbeldi og þeir fá innrætingu um að kynlíf sé ofbeldi, þeir fá þau skilaboð. Þeir fá kannski ekki nægilega öflug skilaboð á móti sem leiðrétta þær ranghugmyndir sem vakna af því að horfa á klám. Þar er fræðsla og upplýsing algjört lykilatriði.

Það er tvennt sem mig langar að nefna aðeins sem er líka talað um í nefndarálitinu og má kannski betur fara og athygli nefndarinnar var vakin á. Hið fyrra tengist kannski því sem ég vék að áðan og það er stafrænt kynferðisofbeldi. Vakin var athygli okkar á því að ekki væri að finna neitt sérstakt verkefni sem tæki á stafrænu kynferðisofbeldi, í þessari aðgerðaáætlun væri ekki gert ráð fyrir aðgerðum til að styðja þolendur stafræns kynferðisofbeldis, aðgerðum til að fræða aðila í réttarvörslukerfinu eða aðgerðum til að efla vitund almennings á þessu fyrirbæri, stafrænu kynferðisofbeldi. Má kannski benda á í þessu samhengi, sem er gert í nefndarálitinu, að stýrihópi um heildstæðar úrbætur sem varða kynferðislegt ofbeldi hefur verið falið að móta stefnu um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi. Betur má þó ef duga skal.

Hitt atriðið sem mig langar að nefna og hefur verið gagnrýnt er að við meðferð málsins var nefndinni bent á að í aðgerðaáætluninni væri hvergi minnst á tengsl áfengis og ofbeldis. Það er eiginlega dálítið mikilvægt, held ég, að hafa þetta í huga vegna þess að áfengi er mikill fylginautur ofbeldis á Íslandi og hefur verið um aldir. Ekki má gleyma því að ofbeldi er menning. Ofbeldi er menningarlegt mein rétt eins og umgengni við áfengi er líka menningarleg. Óæskileg umgengni við áfengi er ómenning og því fylgir iðulega ofbeldishegðun.

Í nefndaráliti er lögð áhersla á mikilvægi forvarna og hlutverk heilbrigðiskerfisins og ég tek hjartanlega undir það. Ég vil líka nefna eitt í viðbót sem ég held að skipti máli í þessu sambandi og það er aðgengi að áfengi. Það hlýtur að skipta máli líka þegar við erum að tala um ofbeldi og áfengi.

Varðandi ungt fólk, fræðslu og upplýsingu sem ég vék aðeins að áðan virðist stundum gleymast þegar ungt fólk er frætt um kynferðismál að kynlíf snýst kannski ekki fyrst og fremst um starfsemi líkamans, eins og mætti stundum ætla af fræðsluefni þar sem lögð er áhersla á að leiða fyrir sjónir hvernig líkaminn starfar í kynlífi. Þetta er rétt eins og annað sem ég hef vikið að, rétt eins og ofbeldi er og rétt eins og áfengisdrykkja er, þetta er menningarlegt. Kynlíf er líka menningarlegt fyrirbæri og huglægt. Það er hægt að innræta ómenningu í þeim efnum, rétt eins og öllum öðrum efnum og það er líka hægt að innræta fallega og mennska nálgun í þeim efnum eins og öðrum.

Þessi aðgerðaáætlun á vonandi eftir að spila vel saman við þingsályktunartillögu sem vísað var til ríkisstjórnarinnar, sem Oddný Harðardóttir lagði fram, og snerist um aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna, og ég bind vonir við að ríkisstjórnin muni vinna vel úr. Í þeirri áætlun eru fjöldamargar, vel útfærðar aðgerðir sem beinast að því að hjálpa börnum sem búa við ofbeldi eða hafa orðið fyrir ofbeldi.

Eins og fyrr segir bind ég miklar vonir við að ríkisstjórnin muni láta þessa aðgerðaáætlun sem við erum að fjalla um hér og svo þingsályktunartillöguna um börn og ungmenni á Íslandi vinna vel saman Íslendingum til hagsbóta.