149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[19:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvar og þakka honum fyrir að benda á þetta. Ég tók eftir þessu en það sem ég var eiginlega að sækjast eftir var sérkafli, einn stór og góður kafli um samning Sameinuðu þjóðanna um fatlaða einstaklinga. Þau voru að vísu þarna inni í kafla með jaðarsettum hópum. Ég var að vonast til að þarna væri sérkafli og svo veitti heldur ekki af af heilli blaðsíðu um fjárhagslegt ofbeldi.

En ég þakka auðvitað fyrir, það er frábært að hafa þetta inni en það var bara þetta sem ég vildi koma að, að hafa þetta skýrara. Þetta er frábær vinna og frábært fyrsta skref. Það er líka frábært að benda á að þarna gleymdist ákveðinn hópur í upphafi og það sendir þau skilaboð að við lærum, að við látum þetta ekki henda aftur og vinnum áfram að því að koma þessum málum í lag.