149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil rétt nefna tvö, þrjú atriði sem komu fram hjá hv. þingmanni. Ég vil byrja á því að þakka henni fyrir góða yfirferð yfir ýmislegt sem er vert að varpa ljósi á í áætluninni.

Fyrst verð ég að gera athugasemd við að hún hafi í tvígang talað um að hér væri um að ræða 28 aðgerðir vegna þess að nefndin bætti tveimur við og nú eru þær orðnar 30.

Kannski langar mig helst að staldra við umfjöllun um samráð. Eins og þingmaðurinn nefndi finnst manni hálfaugljóst að auðvitað eigi ráðuneyti að hafa samráð um alla mögulega hluti, en reyndin er einmitt sú að á því er oft misbrestur. Ég held að einn af stærstu áföngum þessarar áætlunar sé að ráðuneytin þrjú, núna fjögur, sem að þessum málaflokki koma hafi sest saman og skrifað áætlun. Þar með myndast einhver menning samvinnu í málaflokki sem nær þvert á ráðuneyti. Á þeirri menningu er síðan hægt að byggja samráð við aðra aðila utan ráðuneytanna sem var misbrestur á í þessu ferli. Ég bind miklar vonir við síðustu þrjá liði áætlunarinnar, C.12 um árlegan landssamráðsfund, C.13 um eftirfylgni og C.14 um endurskoðun áætlunarinnar, sem leið til þess að vettvangur ráðuneytanna verði í stöðugu samtali við grasrótina, háskólasamfélagið, þá sem starfa á vettvangi, til þess að næsta áætlun verði enn betri en þessi, til að framkvæmd þessarar áætlunar (Forseti hringir.) fari fram úr þeim væntingum sem við berum til hennar.