149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

íslenska sem opinbert mál á Íslandi.

443. mál
[20:59]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir framsöguna. Ég ætla ekki að setja á langar tölur eða orðlengja mikið um þetta. Það var ánægjuleg vinna að taka þátt í að koma þessu máli á rekspöl og maður varð margs vísari. Margir gestir komu og fræddu okkur og hjálpuðu okkur við að útbúa þetta mál og ég tel að þetta sé vel til þess fallið að efla íslensku sem lifandi tungumál í komandi ólgusjó tungumála í veröldinni, hvernig sem það mun nú allt veltast.

Það má alveg spyrja þeirrar spurningar hvort ástæða sé til þess á annað borð að vernda íslenskuna og til hvers eigi eiginlega að vernda íslenskuna, hvort þetta sé ekki bara orðið ágætt með íslenskuna, hún hafi lifað af í gegnum þessar aldir og hafi þjónað sínu hlutverki ágætlega fram til þessa og hvort nú sé ekki bara komið að því að önnur tungumál leysi íslensku af hólmi og hvort við eigum ekki bara öll að fara að tala ensku vegna þess að það séu hvort sem er engir sem skilji íslensku aðrir en við sjálf og varla við sjálf. Það er kannski ekki auðvelt að svara því vegna þess að þetta er að einhverju leyti tilfinningalegt mál. Þetta er ekki bara spurning um kalda rökhyggju, þetta er einhvern veginn innbyggt í sameiginlegt minni og sameiginlegt tilfinningalegt minni þjóðarinnar að hún skuli tala íslensku og að hún skuli bera virðingu fyrir íslenskunni. Það er einhver sú tilfinning að íslenskan sé verðmæti í sjálfu sér og ekki bara það heldur fáum við, þegar við tölum og ekki síður þegar við lesum íslensku, tengingu, það er þráður þarna í eitthvað aldagamalt. Við getum enn lesið það fyrsta sem var ritað á íslenska tungu og skilið það. Það er ekki mjög algengt í heiminum að svo sé um þjóðir og þar með getum við einhvern veginn fengið aðgang að heilabúi löngu gengins fólks á alveg einstakan hátt.

Þegar við fáum aðgang að þessu heilabúi fáum við aðgang að liðinni heimsmynd og við fáum aðgang að miklu víðari veröld en við höfum fyrir augunum í dag og hvað þá á skjánum í dag. Það hjálpar okkur í sjálfu sér að hugsa um heiminn á einhvern víðari hátt en ella væri. Það er mikilvægt að hugsa um heiminn á íslenskri tungu vegna þess að íslenskan er full af hugtökum og hugsanaleiðum sem eru kannski ekki til í öðrum tungum og um leið og við við kunnum önnur tungumál sem gefa okkur þá einhvern aðgang að einhverri heimsmynd þar höfum við þennan útgangspunkt sem er íslenskan og það er í sjálfu sér ómetanlegt.

Svo tölum við stundum um að gæta þurfi að fjölbreytni í heiminum. Við tölum um líffræðilegan fjölbreytileika, að við þurfum að koma í veg fyrir að tegundir deyi út. Við þurfum að koma í veg fyrir að gróðurinn verði of einsleitur, gróðurtegundir deyi út, dýrategundir og hitt og þetta. Við tökum það mjög alvarlega en við megum þá ekki heldur gleyma því að það er fjöldi tungumála sem deyr út á hverju ári vegna þess að enginn talar þau lengur. Það er með öðrum orðum hlutverk okkar sem nú erum á dögum að varðveita íslenskuna fyrir heiminn, að varðveita íslenskuna fyrir mannkynið. Það gerir það enginn annar. Hollendingar munu ekki varðveita íslenskuna og ekki aðrir. Það eru einungis Íslendingar sem nota íslenskuna í sínu daglega lífi sem munu geta varðveitt íslenskuna og þeir varðveita einungis íslenskuna með því að nota íslenskuna í sínu daglega lífi. Þeir varðveita hana ekki með því að setja hana á safn. Íslenskan á ekki heima á safni. Hún er ekki safnhlutur og þess vegna getur eitthvert orð ekki verið eins og hlutur á safni óumbreytanlegur og svo sé það okkar hlutverk að þurrka af þessu orði af og til með einhverjum fínlegum burstum. Við getum ekki gengið um íslenskuna eins og mjög viðkvæman og brothættan hlut sem þurfi helst að fara í einhverja sérhannaða hanska áður en maður handleikur. Það er ekki íslenskan. Íslenskan á að þola alls konar hnjask og óhreinindi og hún gerir það vegna þess að hún er mjög orðríkt og beygingaríkt og blæbrigðaríkt tungumál. Ef við bara munum að vera ekki of hátíðleg þegar við erum að hugsa um íslenskuna, tala íslenskuna og tala um íslenskuna heldur nota hana alveg villt og galið.

Þá finnst mér mikilvægt að íslenskukennslu sé þannig háttað að við séum ekki að innræta börnunum þegar þau koma í skólana að íslenska sé útlenska, að íslenska sé mjög vandasamt tungumál sem þau muni aldrei nokkurn tímann ná tökum á vegna þess að þau segi kannski „ég vill“ eða þau segi „mér langar“ og þau noti önnur blæbrigði tungunnar sem samræmist ekki einhverjum opinberum reglum um það hvernig íslenskan eigi að vera sem safngripur. Þau eru að nota íslenskuna sem lifandi tungumál í sínu daglega lífi, sem sitt móðurmál, málið sem þau hafa alist upp með og nota í öllum sínum samskiptum. Það er enginn sem á að segja þeim, þegar þau koma í skólana, að þau kunni ekki íslensku. Þetta er málið þeirra, þetta er málið sem býr í þeim. Tungumálið er svo mikið þú sjálfur og þess vegna má aldrei segja við einhvern: Þú talar ekki nógu gott mál, ekki nógu fínt mál. Þú ert ekki nógu fínn, þú ert ekki nógu góð. Það má ekki nálgast tungumálið á þann hátt. Það verður alltaf að gera slíkt af kærleika, en það verður jafnframt að gera það af kærleika og ást til tungumálsins.

Ég held að það sé vel hugað að þessu öllu í þessari þingsályktunartillögu og að hún sé vel til þess fallin að efla veg íslenskunnar. Ég vona svo sannarlega að þarna verði ákveðin viðspyrna og að þetta verði kannski til þess að hér geti orðið einhvers konar vitundarvakning. Það fer ekki hjá því að manni finnist örla á dálitlu andvaraleysi gagnvart íslenskunni meðal fólks almennt sem er kannski ekkert skrýtið. Maður hugsar kannski ekki endilega mikið út í tungumálið sem maður notar í sínu daglega lífi og á kannski ekkert að þurfa að gera það. En það er áhyggjuefni þegar enskan sækir svo mjög á og þegar maður sér mikið af því að lítil börn eru að horfa á afþreyingarefni og eiginlega máltökuefni, efni sem hjálpar þessum litlu börnum við máltökuna, og það er á ensku og foreldrarnir gera sér ekki alveg grein fyrir því hvað þau eru að setja í hendurnar á litlu börnunum þegar allt þetta enska efni dynur á þeim. Það verður til þess að þau fara að hugsa á ensku og þau fara að hugsa á hálfgerðri skollaensku. Þetta er ekki raunveruleg lifandi enska raunverulegs lifandi fólks úr raunverulegum lifandi samfélögum. Þetta er einhvers konar tölvuenska og er kannski ekki mjög þroskavænlegt tungumál. Þess vegna er mjög mikilvægt að efla íslensku í þessu máltökuefni, þessu erlenda afþreyingarmáltökuefni, fyrir börn, að það verði algjört forgangsmál að það verði talsett og jafnvel framleitt hér. Ég hef mikla trú á því að Íslendingar nái góðum tökum á nýrri máltækni þannig að þeir geti notað íslenskuna í þeim efnum.

Við heyrum fólk oft segja: Hvernig er þetta aftur á íslensku? Svo kemur það með eitthvert enskt orð sem er kannski algengt í umræðunni sem bendir til þess að það hugsar um fyrirbærin á ensku. Ég held að þetta sé kannski ekki svo skaðlegt, það sé ekki endilega svo slæmt. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að hleypa menningarstraumum inn í landið og inn í gáttir hugans alveg villt og galið og að það sé í sjálfu sér ekki endilega svo skaðlegt að hugsa á alþjóðatungum um málefni sem eru í eðli sínu alþjóðleg á þessum miklu alþjóðatímum. Ekki viljum við verða einangrað samfélag sem er bara með sín litlu úrlausnarefni á sinni einangruðu þjóðtungu.

Við verðum engu að síður alltaf að reyna að finna orðið, hvernig þetta er aftur á íslensku, ekki vegna þess að við förum upp á safnið og finnum hlutinn, þurrkum af honum rykið og horfum á hann í ljósinu og dáumst að honum heldur vegna þess að þegar við finnum íslenska orðið og jafnvel smíðum íslenska orðið erum við um leið að skapa hlutinn. Við erum að skapa hugtakið og við erum að ná utan um hugtakið, við erum að ná utan um heiminn. Við erum að hugsa um heiminn á íslensku og ég held að þessi þingsályktunartillaga, um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi, stuðli að því.