149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

íslenska sem opinbert mál á Íslandi.

443. mál
[21:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir mjög góða ræðu og mjög innihaldsríka í tengslum við íslenskt tungumál. Það eru nokkur atriði sem ég hef mjög mikinn áhuga á og ég er ekki mjög mikill tungumálamaður. Ég var að læra dönsku í framhaldsskóla. Maður náði eitthvað að stauta sig í gegnum hana, gekk alveg ágætlega, svo bættist þýskan við og þá fóru bæði málin í klessu, ég var alveg týndur. Maður átti að fara að læra þýska málfræði sem var nákvæmlega eins og íslensk málfræði, sem er ekkert gríðarlega áhugaverð. Þá bara: Nei, ég ætla ekki að læra aftur íslenska málfræði á öðru tungumáli. Það var nógu erfitt í fyrra skiptið, ég var aldrei neitt rosalega góður í því.

Ég hef lært að meta tungumálin á nýjan hátt þó að ég hafi aldrei verið neitt sérstaklega góður í þeim. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé skilningurinn sem skiptir öllu máli þegar allt kemur til alls, að geta gert sig skiljanlegan á tungumálinu og að skilja aðra, sem er alls ekki auðvelt, því að tungumál er mjög ófullkomin leið til þess að koma hugsunum sínum á framfæri þó að sumir séu að sjálfsögðu miklu betri í því en aðrir, koma því frá sér á skáldlegan hátt eins og hv. þingmaður gerir oft og hæstv. forseta líkar vel við. Ég er ekki eins skáldlegur aftur á móti og fólk misskilur mig mjög oft, ég hef mjög mikið orðið var við það.

Það eru einmitt tvö atriði sem ég hef í huga, annars vegar að læra tungumál til þess að geta gert sig skiljanlegan og skilja aðra og hins vegar eru það útdauð tungumál sem hv. þingmaður kom inn á og tengjast öðru verkefni, máltækni í íslensku. Ég spyr hvort það séu ekki þessi tvö aðalatriði sem við þurfum að einbeita okkur dálítið að varðandi íslenskuna, skiljanleikinn og svo að koma í veg fyrir að málið deyi út og verði yfirritað af öðrum málum, (Forseti hringir.) að við getum kennt tölvum íslensku á tölvuöld.