149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

íslenska sem opinbert mál á Íslandi.

443. mál
[21:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt blandan af þessu tvennu, máltæknin að vissu leyti sem er líka málið í tölvuheiminum. Röddin er ekki notuð. Sá sem er að hlusta kinkar ekki kolli til að láta vita að hann skilji hvað átt er við, það eru samstundis samskipti um að mælandinn komi meiningu sinni á framfæri. Þegar við notum lyklaborð til að senda frá okkur skilaboð vitum við ekki hvort viðkomandi tekur því á jákvæðan eða neikvæðan hátt, hvort hann lesi úr því kaldhæðni eða reiði eða ýmislegt svoleiðis. Það eru ekki allir gæddir þeirri skáldagáfu að geta komið tilfinningum í orð á skilmerkilegan hátt, t.d. finnst mér ég aðeins of lógískur fyrir tungumál, málfræðina og svoleiðis, allt of mikið af undantekningum og alls konar þess háttar krulleríi sem ég áttaði mig aldrei á og gat ekki sett í lógískt samhengi.

Sem dæmi um það nefni ég það þegar hv. þingmaður byrjaði ræðu sína og sagðist ekki ætla að lengja þetta mál mikið, en svo stóð ræðan, kannski að því er ég skildi það, í lengri tíma en ég lagði í orðin, að hann ætlaði ekki að lengja málið. Það er reyndar dálítið algengt á þingi að fólk kemur í ræðu og segist ekki ætla að lengja málið, en er á nákvæmlega þeim tíma, að mínum lógíska skilningi, að gera nákvæmlega það.

Það eru svona atriði sem ganga voða vel í munnlegum samræðum og eru ekkert mál en í tölvuheiminum, þar sem tungumálið lifir allt öðruvísi lífi en við gæðum það með mannlega þættinum, breytist skiljanleiki þess. Það er nokkuð sem við þurfum að læra.