149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

íslenska sem opinbert mál á Íslandi.

443. mál
[21:20]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið — og ég ætla ekki að lengja mál mitt hér. Þetta er heillandi viðfangsefni. Tungumálið er organismi, það er lífheild. Það er lifandi. Það verður til í hausnum á okkur og það fer fram á milli okkar.

Það er dálítið gaman að fylgjast með tungumáli verða til í tölvunum, í tölvusamskiptum og í tölvupóstinum. Þetta er svolítið eins og að fylgjast með Surtsey. Smám saman er að verða til líf í Surtsey, sem var bara fyrst svört, svo verður smám saman til gróður. Þannig erum við líka að fylgjast með tungumálinu verða til í tölvunum, þ.e. sem mannlegum samskiptamáta. Það gerist með broskörlum og alls konar táknum sem verða alltaf fleiri og fleiri, sem við notum til þess einmitt að kinka kolli. Það er þumallinn sem er kominn núna og við notum til ýmissa verka. Og svo er hér nokkuð sem heitir „seen“, þegar maður er „seenaður“. Þá er jafnvel hægt að gera lítið úr fólki með því að hafa séð skilaboðin, „seena“ þau en svara þeim ekki. Þannig má lengi telja. Þannig getum við fylgst með mannlegu samfélagi vaxa upp. En mannlegt samfélag er alltaf óhugsandi án tungumáls. Og íslenskt samfélag er óhugsandi án íslensks tungumáls. Um leið og við hættum að tala íslenskt tungumál erum við orðin annað samfélag.