149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC).

767. mál
[21:36]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC). Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, Náttúrufræðistofnun Íslands og Veðurstofu Íslands. Nefndinni bárust umsagnir frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, Náttúrufræðistofnun Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Veðurstofu Íslands.

Tilefni og tilgangur frumvarpsins er að gera Íslandi kleift með innleiðingu reglugerðar ráðsins nr. 723/2009 frá 25. júní um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) ásamt reglugerð ráðsins nr. 1261/2013 frá 2. desember 2013 um breytingu á reglugerð nr. 732/2009 að gerast aðili að samtökum um evrópska rannsóknarinnviði. Með innleiðingu reglugerðanna opnast tækifæri fyrir íslenskt vísindasamfélag til að taka þátt í samstarfi um uppbyggingu og rekstur rannsóknarinnviða sem eru af þeirri stærðargráðu að ógerningur er fyrir einstök ríki að fjármagna slíka innviði sjálfstætt.

Samhljómur var á meðal gesta um mikilvægi þess að samþykkja frumvarpið og tryggja þátttöku og samstarf um evrópska rannsóknarinnviði. Samþykkt þess eykur m.a. möguleika íslensks vísindasamfélags á aðgangi að rannsóknarinnviðum og fjármagni úr samkeppnissjóðum. Nefndin tekur undir framangreint og áréttar jafnframt að fjárhagsleg áhrif snúa ekki einvörðungu að kostnaði af þátttöku Íslands í erlendum ERIC-samtökum heldur er einnig um að ræða jákvæð fjárhagsleg áhrif fyrir vísindasamfélagið. Til dæmis hefur þátttaka Íslands í rannsóknarverkefnum leitt til styrkveitinga sem eru hærri en kostnaður við þátttöku í slíku samstarfi. Þá er einnig um að ræða fagleg áhrif fyrir vísindasamfélagið.

Nefndin leggur til minni háttar orðalagsbreytingar á 1. og 5. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað orðsins „heimila“ í 1. gr. komi: stuðla að; og: Í stað orðanna „umsóknir Íslands að“ í 5. gr. komi: umsóknir um þátttöku Íslands í.

Páll Magnússon og Helgi Hrafn Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Undir álitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Hjálmar Bogi Hafliðason, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Guðmundur Andri Thorsson, Halla Gunnarsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Jón Steindór Valdimarsson.