149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

lýðskólar.

798. mál
[22:30]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Hér fjöllum við um mikilvægt frumvarp til laga um lýðskóla. Ég iða í skinninu að fá að segja nokkur orð af þessu tilefni. Þetta er tímamótafrumvarp, við stöndum á tímamótum þegar við erum að því komin hér við 2. umr. að festa í lög nýtt skólaform — ég segi kannski ekki nýtt skólastig en nýtt skólaform — á Íslandi. Það er sögulegt. Markmiðið með því er að stuðla að starfrækslu lýðskóla á Íslandi sem hafi það að markmiði að veita, eins og segir í 1. gr., „almenna menntun og uppfræðslu í samræmi við ákvæði laganna og undirbúa nemendur fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi“, efla þá til þess að verða þátttakendur í samfélaginu, nýta möguleika sína eins og kostur er og betur en ella. Þetta er því gott frumvarp og svar við brýnu ákalli úr samfélaginu. Þessu málefni hefur verið gefinn ríkulegur gaumur að undanförnu og það er fagnaðarefni, sá áhugi sem stjórnvöld hafa sýnt því að lögfesta lýðskólaformið í fyrsta sinn hér á Íslandi. Þessa hugmyndafræði um lýðháskóla þekkjum við auðvitað frá öllum Norðurlöndunum og öllum löndunum í kringum okkur og höfum reynslu af því. Það hefur verið allgóður hópur af áhugafólki á Íslandi sem hefur haldið lífinu í þessari hugmyndafræði hér heima, sérstaklega kannski fyrir atbeina Ungmennafélags Íslands. Þau hafa beðið lengi enda hefur ungmennafélagshreyfingin tengst þessu með einum eða öðrum hætti í bráðum 100 ár.

Mig langar að hlaupa í fljótheitum yfir nokkur atriði nú við 2. umr. Ég tók þátt í umræðunni þegar þetta var til umfjöllunar í fyrsta sinn. Kannski endurtek ég mig að einhverju leyti, enda hef ég ekki skipt um skoðun á ágæti þessa máls.

Í 5. gr. þessa frumvarps er fjallað um fjármögnun starfsemi lýðskóla. Eins og framsögumaður allsherjar- og menntamálanefndar kom svo ágætlega inn á hefur nefndin fjallað um þetta með ágætum hætti og þekkir vel við hvað er að fást. Ég tel ástæðulaust að kvíða því að þessir skólar fái ekki eðlilega fyrirgreiðslu hins háa menntamálaráðuneytis. Annars staðar á Norðurlöndunum sem við þekkjum til er fjármögnun lýðskólanna hluti af þessari umgjörð enda er þetta þrautreynd námsleið og námsvalkostur. Þetta mun eflaust taka þróun hér og eins og kom fram í nefndarálitinu er allítarlega fjallað um þá þætti.

Í 8. gr. frumvarpsins er fjallað um, eins og hv. framsögumaður kom inn á, þennan þátt sem einhverjir höfðu áhyggjur af sem sendu umsögn til nefndarinnar og varðar búsetu- og heimavistarákvæði. Þessir umsagnaraðilar kusu auðvitað að þetta væri dálítið víðara, að nemendur gætu búið annaðhvort í húsnæði á vegum skólanna eða í eigin húsnæði ef þeir búa nærri skólunum. Það verður ágreiningslaust, held ég.

Frú forseti. Veruleikinn sem við okkur blasir í samfélagi dagsins er sá að það eru allt of margir ungir einstaklingar sem snúa baki við sínum gamla hefðbundna skóla og hverfa í þann stóra hóp sem fellur brott úr íslensku skólakerfi. Því miður lenda margir í óvissu og það líður óvissutímabil í þeirra lífi og margir lenda í erfiðleikum og jafnvel á einhvers konar villigötum. Flest bendir til þess, og einmitt þessi uppbyggilegu viðbrögð að koma á þessum nýja valkosti, að við verðum að laga okkur betur að þörfum ungra einstaklinga, fækka þeim sem upplifa sig eins og þeir búi á berangri; að það finni ekki tilgang í lífinu, þetta unga og annars efnilega íslenska æskufólk sem við eigum.

Frú forseti. Nám við lýðskóla er ólíkt því sem við eigum að venjast í hefðbundnum framhaldsskólum. Í lýðskólaumhverfinu gefst nemendum annars konar færi til að þroskast eftir nýstárlegum en árangursríkum leiðum. Þar er nándin oftast meiri við bæði kennara og aðra nemendur og tækifæri gefst til þess að prófa sig við nýjar aðstæður, prófa sig áfram í framandi umhverfi. Þar eru áherslurnar ekki eins og í hefðbundna skólakerfinu, þ.e. að fást við fræðilega þætti og glímuna við skólabókina, þó að það sé auðvitað hluti af námi lýðskólanna líka. Það er frekar þjálfun í félagslegri færni sem marga skortir í samfélagi dagsins, það er að tengjast því umhverfi sem skólarnir starfa í. Við erum með tvo skóla sem starfa á skammtímasamningum, má segja, í dag. Það er hinn ágæti skóli á Seyðisfirði, LungA, og svo Lýðskólinn á Flateyri. Allt þeirra starf lofar mjög góðu. Þeir búa að því umhverfi sem þeir starfa í, hvor með sínum hætti, lýðskólinn á Seyðisfirði sem tengir sig sérstaklega við listsköpun og svo skólinn á Flateyri sem tengir sig kannski við náttúruna og þær rætur sem skólinn býr við og umhverfið fyrir vestan. Þetta er vandað nám að sjálfsögðu, þroskandi og dýrmætt fyrir þá sem hafa orðið viðskila einhvers staðar á leiðinni. Þeir eru of margir. Íslendingar hafa sérstöðu að þessu leyti. Tölulegar samantektir tala sínu máli.

Frú forseti. Ég nefndi Lýðskólann á Flateyri. Það er mér nærtækt. Ég þekki nokkuð til hans. Eins og hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir kom inn á er þar blómstrandi starf og við höfum upplifað það að bærinn hefur tekið stakkaskiptum. Þetta er mikils virði fyrir allt þetta umhverfi og það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Það var ekki mjög hressilegt yfirbragð yfir hinum kröftugu íbúum á Flateyri um tíma en tilkoma þessa skóla hefur skipt sköpum að mínu áliti. Þetta er kannski lýsandi dæmi um það hvernig hið opinbera getur komið til liðs með framtaki af þessu tagi og stutt þannig uppbyggingarstarf á forsendum heimamanna. Þarna fyrir vestan er rótgróið menningarsamfélag eins og allir þekkja og af samtölum við hið unga fólk, flestir nemendanna eru ungir, er mikil ánægja með dvölina á svæðinu.

Við vonumst til þess að skólinn fái að dafna og það er auðvitað ánægjulegt að vita til þess að það sama muni gilda um lýðskólann á Seyðisfirði og vonandi munu fleiri skólar rísa. Við þekkjum áhugann á að koma á lýðskólastarfi á Laugarvatni á hinu glæsilega rótgróna mennta- og menningarsetri sem á svo ríka sögu um íþróttakennslu.

Eins og komið hefur fram er lýðháskólahugmyndafræðin ekki ókunnug Íslendingum. Mikill fjöldi Íslendinga hefur sótt lýðháskóla á Norðurlöndum, haft af því gagn og menntun og bera skóladvöl sinni mjög góða sögu. Fram til þessa hefur þessari hugmyndafræði ekki vegnað vel á Íslandi eða hún hefur ekki náð fram að ganga. Vestnorræna ráðið hefur gefið þessu gaum og fyrir nokkrum misserum var samþykkt þingsályktun í öllum þingum vestnorrænu ríkjanna um að gefa því gaum hvort við gætum komið á laggirnar svokölluðum eftirskólum sem eru ekki lýðháskólar í sinni mynd en kannski eitthvað í áttina. Það er engin hefð fyrir því á Íslandi fremur en fyrir lýðháskólum en ég tel að þessi ályktun hafi kannski vakið menn til einhverrar umhugsunar og alltént ekki tafið þá þróun að við erum að lögfesta hér þetta skólaform um lýðskóla og það er gleðiefni.

Frú forseti. Það er ánægjulegt, eins og ég hef nú þegar nefnt, hversu öflugu lífi hefur verið blásið í þessa góðu hugmyndafræði hér á landi og sem verið er að staðfesta með þessu frumvarpi. Það er líka ástæða til að þakka hæstv. ráðherra fyrir þann skilning, frumkvæði og einurð sem hún hefur sýnt við að ýta þessu áfram og hennar skilning á því að við þurfum að bregðast við þeim merkjum sem við fáum stöðugt um vandann í íslenska skólakerfinu, um vanda fjölda ungs fólks, ekki allra, og vanlíðan margra í skólunum og nauðsyn þess að freista þess að koma til móts við nemendur sem af einhverjum ástæðum falla ekki að hinu hefðbundna skólakerfi. Þetta er gott skref sem verið er að stíga því að námsdvöl í lýðskóla er mjög góður kostur fyrir stóran hóp ungmenna.

Ég vil að lokum árétta það sem ég hef nefnt áður, og er kunnugt, að Danir og samtök lýðháskóla í Danmörku hafa greint það með rannsóknum og skoðunum að dvöl ungs fólks á lýðháskóla, fólks sem fallið hefur úr skóla í hinu hefðbundna menntakerfi, er ótvírætt góð. Líkurnar á því að snúið sé aftur til náms og haldið áfram í námi á æðri stigum aukast verulega ef sá áfangi næst að fá ungt fólk til að stunda nám t.d. í lýðskóla því að menntun af öllu tagi er svo uppbyggileg.