149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

lýðskólar.

798. mál
[22:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka allsherjar- og menntamálanefnd fyrir umfjöllunina og þær gagnlegu athugasemdir sem hún kom með við frumvarpið en ég tek jafnframt undir með hv. þingmönnum um mikilvægi þess að setja lög um lýðskóla, sérstaklega vegna þess að við sjáum að brotthvarf á framhaldsskólastiginu á Íslandi er mun meira en hjá hinum Norðurlöndunum. Það er alveg rétt sem fram kemur að það eykur verulega líkurnar á því, þ.e. að hafa þennan fjölbreytileika í menntakerfinu, að ungt fólk finni sig og sé þá líklegra til að finna nám við hæfi. Þess vegna tel ég að frumvarpið sé mjög mikilvægt, að við séum loksins að ná utan um lýðskóla og þá hugmyndafræði.

Ég þakka nefndinni kærlega fyrir vel unnin störf og fagna því að málið sé að fá þann framgang sem raun ber vitni.