149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

vinnsla persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

555. mál
[10:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef hér framsögu fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Málið er að finna á þskj. 1681.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Ólafsson og Hinriku Söndru Ingimundardóttur frá dómsmálaráðuneyti, Bryndísi Kristjánsdóttur og Þórunni Sigurðardóttur frá skattrannsóknarstjóra ríkisins, Gísla Rúnar Gíslason, Írisi Ösp Ingjaldsdóttur og Karen Bragadóttur frá tollstjóra og Þórð Sveinsson og Pál Heiðar Halldórsson frá Persónuvernd.

Nefndinni bárust umsagnir frá Persónuvernd, skattrannsóknarstjóra ríkisins og tollstjóra.

Með frumvarpi þessu er lagt til að setja heildarlög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hjá yfirvöldum á sviði refsivörslu. Með frumvarpinu er jafnframt verið að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 27. apríl 2016, um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum í tengslum við að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum og frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og um niðurfellingu rammaákvörðunar ráðsins, þ.e. löggæslutilskipun.

Nefndin fjallaði einna helst um skilgreiningu lögbærra yfirvalda, hver þau væru, og miðlun þessara yfirvalda á persónuupplýsingum til annarra opinberra aðila eða einkaaðila í löggæslutilgangi eða í öðrum tilgangi.

Í nefndarálitinu, sem er býsna langt og ítarlegt og í allmörgum köflum sem ég ætla ekki að lesa alla upp hér, er farið yfir orðskýringar, gildissvið, miðlun upplýsinga í löggæslutilgangi og miðlun upplýsinga í öðrum tilgangi, aðgang að persónuupplýsingum, refsingar og reglugerðarheimildir. Ég vísa í þessum efnum til þingskjalsins sem geymir nefndarálitið en vil þó taka fram að meiri hlutinn bendir á að ekki er um að ræða eiginlega EES-innleiðingu heldur er um að ræða lögfestingu ákvæðis umræddrar tilskipunar í samræmi við skuldbindingar Íslands á grundvelli Schengen-samstarfsins. Meiri hlutinn leggur til að ákvæði þar að lútandi falli brott þar sem slíkt innleiðingarákvæði á ekki við nema um sé að ræða gerðir sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn.

Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að fella brott a-lið 2. töluliðar 37. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til ný grein í lögreglulögum, nr. 90/1996, þess efnis að um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt þeim fari eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Fram komu sjónarmið um að lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga giltu ekki um vinnslu sem fram færi í þágu löggæslu, sem og að reglum frumvarpsins væri því ætlað að skjóta sérstökum stoðum undir slíka vinnslu.

Nefndinni var bent á að ákvæði lögreglulaga lytu einnig að stjórnsýslustarfi lögreglu sem fellur undir gildissvið laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, t.d. ákvæði IV. kafla laganna um veitingu starfa í lögreglunni. Þannig verði öll vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við ráðningar og skipanir í embætti áfram á grundvelli þeirra laga en ekki frumvarpsins. Með hliðsjón af því telur meiri hlutinn því ekki tilefni til breytingar á a-lið 2. töluliðar 37. gr. frumvarpsins.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til orðalagsbreytingar til samræmingar, lagfæringar eða leiðréttingar í mörgum töluliðum og fylgja breytingarnar á sérstöku þingskjali. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum.

Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Undir álitið skrifa sá sem hér stendur, Páll Magnússon, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Birgir Ármannsson, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson og Líneik Anna Sævarsdóttir.