149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

upplýsingalög.

780. mál
[11:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er eitt af afar mikilvægum málum sem hafa komið hingað inn til þingsins er varða tjáningarfrelsi og upplýsingalög og langaði mig af því tilefni að þakka hv. framsögumanni málsins fyrir yfirgripsmikla ræðu. Mig langar að fara yfir nokkra hluti.

Upplýsingaréttur almennings er gríðarlega mikilvægur og skiptir okkur öll mjög miklu máli að hann sé virtur og að stjórnvöld virði rétt almennings til upplýsinga úr stjórnkerfinu, frá opinberum stofnunum, opinberum aðilum, ráðamönnum o.s.frv. Við höfum auðvitað fengið fjölmörg tilvik í gegnum tíðina og á undanförnum árum þar sem upplýsingarétturinn hefur ekki verið virtur sem skyldi. Borið hefur á því, og það kom vel fram fyrir nefndinni, bæði hjá þeim sem starfa við fjölmiðla og líka hjá þeim sem voru að vinna þetta frumvarp sem og þeim sem vinna inni í kerfinu, að svo virðist sem stjórnvöld hafi brugðið á það ráð undanfarin misseri að svara engu þegar beiðni um upplýsingar berst frá fjölmiðlum eða svara neitandi, þannig að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fær málið til sín, að það sé í rauninni viðtekin venja að svara illa eða svara neitandi þegar beiðni um upplýsingar kemur til að þurfa ekki að taka afstöðu, til þess til að kaupa sér tíma.

Þetta kom fram í máli nánast allra sem komu fyrir nefndina, hvort sem um var að ræða fulltrúa úrskurðarnefndar um upplýsingamál eða fulltrúa blaðamanna. Tilgangurinn með þessum breytingum er að greiða leið almennings að nauðsynlegum upplýsingum.

Í nefndinni var mjög mikið rætt um þennan ofboðslega langa málsmeðferðartíma sem er verið að veita. Talað var við blaðamenn, fjölmiðlafólk, um það og allir voru sammála um að þetta er auðvitað ofsalega langur tími. Stundum er það þó þannig að um er að ræða mjög umfangsmikla gagnaöflun sem þarf að eiga sér stað. En stundum er það ekki þannig og talað var um það í sambandi við þann 40 daga frest sem stjórnvald hefur til að skila upplýsingum, veita upplýsingar, að vegna þess að þetta er sett þarna inn munu stjórnvöld alltaf notað þá 40 daga, að hætta sé á að það verði alltaf ramminn.

Þetta var rætt á fjölmörgum fundum við fjölmarga gesti. Það er auðvitað þannig í fjölmiðlaheiminum að fréttir lifa stundum aðeins í nokkra daga og ef það líða 40 dagar er fréttin löngu farin og skaðinn skeður. Þess vegna var mikið um það rætt. En allir voru sammála um það í rauninni að þó væri betra að hafa þennan 40 daga frest til þess að veita upplýsingabeiðanda þá skýru heimild að geta kært málið strax til úrskurðarnefndar í staðinn fyrir, eins og núna er, að stjórnvaldið dregur og dregur og dregur að svara og sá sem er að biðja um upplýsingarnar getur ekki leitað neitt. Hann getur ekki kært því að það er ekki komið neitt svar. Það er ekkert nei komið. Það er ekki komið neitt svar og það dregst mjög lengi. (Gripið fram í.) — Nú greip hv. þm. Jón Þór Ólafsson fram í fyrir mér en það verður bara að hafa það.

Talað var um það í frumvarpinu að hafa þessa 40 daga. Fyrir nefndinni var mikið talað um hvað þetta væri langur tími og var mikill vilji til þess að hafa hann styttri. Meginreglan er sú að það á að vera búið að skila upplýsingum innan sjö daga frá móttöku beiðninnar. Það er meginreglan og skal skýra frá því af hverju það fari fram yfir sjö dagana. Stjórnvaldið á að láta þann sem óskar eftir upplýsingum vita hvers vegna upplýsingarnar berast ekki á einni viku.

Ákvörðun var hins vegar tekin í nefndinni um að 40 dagarnir væru full rúmir og þess vegna er lögð til sú breyting í meðförum nefndarinnar að stytta tímann niður í 30 daga. Sitt sýnist hverjum um það. Talað er um að það sé of lítill tími þegar um er að ræða viðamiklar upplýsingar en samt er það nú svo að ef um er að ræða mjög viðamiklar upplýsingar og ef stjórnvaldið er í skýru samtali við þann sem óskar eftir upplýsingunum þá voru hlutaðeigandi, fjölmiðlafólk sem kom fyrir nefndina, sammála um að ef samtal er í gangi er sjaldnast farið í mikla hörku ef það er alveg ljóst að verið er að vinna beiðnina. Það sem hefur helst truflað í dag, eins og regluverkið er núna, er að það er bara þögn. Það berst ekkert svar. Það er algerlega ótækt.

Það sem er verið að breyta er að fáist ekki svar innan 40 daga, sé einstaklingurinn eða fjölmiðillinn ekki virtur viðlits, er núna hægt að fara fyrir úrskurðarnefndina og kæra að ekki sé búið að afhenda upplýsingarnar.

Það er mjög mikilvægur þáttur í þessu frumvarpi er varðar ráðgjafa um upplýsingarétt almennings. Sá ráðgjafi á að vera sá sem veitir bæði stjórnvöldum og almenningi ráð varðandi réttinn til upplýsinga. Þetta eru allir sammála um að muni greiða leið slíkra mála, þ.e. að stjórnvöld geti með því leitað til þessara ráðgjafa og spurt: Höfum við rétt á að birta upplýsingarnar? Megum við að afhenda þær? Í staðinn fyrir, eins og hefur tíðkast undanfarin misseri, að stjórnvöld skýli sér á bak við að vilja frekar vera öruggu megin við línuna og birta engar upplýsingar, afhenda engar upplýsingar og láta úrskurðarnefndina um þetta.

Það voru allir sammála um að slíkur ráðgjafi mun gera það að verkum að mun færri mál fari fyrir úrskurðarnefndina en í dag vegna þess að meiri upplýsingum verður komið áleiðis en núna er þegar stjórnvöld virðast hafa þetta sjálfkrafa svar: Nei, við afhendum ekki upplýsingar nema úrskurðarnefndin veiti heimild til þess.

Við í nefndinni og þeir gestir sem komu fyrir nefndina bindum miklar vonir við að ráðgjafi um upplýsingarétt almennings muni senda stjórnvöldum skýra línu í svörum sínum um að þau hafi bæði frumkvæðisskyldu og eftirlitsskyldu og ráðgjafarskyldu gagnvart almenningi og stjórnvöldum.

Varðandi málshraða hjá sjálfri nefndinni var líka mikið um það rætt hversu langan tíma úrskurðarnefnd um upplýsingamál ætti að hafa til þess að kveða upp úrskurð sinn. Fram kom að meðalmálsmeðferðartíminn hjá nefndinni er 180–220 dagar og eru allir sammála um að það sé algjörlega ótækt. Var talað um það innan nefndarinnar að hámarkstíminn ætti helst að vera 30 dagar, mögulega 60 dagar, en þeir sem þekkja kerfið hvað best og fulltrúar úrskurðarnefndar sem komu fyrir nefndina, og auðvitað þeir sem komu að því að semja þetta frumvarp sem að sögn leituðu upplýsinga hjá úrskurðarnefndinni, sögðu að það væri algerlega óraunhæft að setja slíkt ákvæði inn í lögin á þessum tímapunkti vegna þess að fyrst yrði að byggja upp nefndina, fjölga starfsfólki þar, koma ráðgjafa um upplýsingarétt almennings til starfa og finna hvernig það er áður en tekin verður ákvörðun um að skera niður þann tíma sem nefndinni er ætlaður til að svara.

Þess vegna er um það fjallað í nefndarálitinu og um þetta var mikið tekist á innan nefndarinnar, satt að segja, hvort dagafjöldinn ætti að vera 150 dagar frá móttöku. En ferlið er auðvitað þannig að nefndin fær beiðnina eða kæruna, gagnaðili, stjórnvaldið fær tækifæri til andsvara, til að skila inn greinargerð og svo kemur aftur kærandi sem fær þá að bregðast við henni. Þess vegna tekur þetta tíma. Nefndin fær aðgang að þeim upplýsingum sem verið er að biðja um o.s.frv. Því tekur þetta þennan gríðarlega tíma. En nefndin komst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að unnið verði áfram með það markmið að halda málsmeðferðartíma í lágmarki. Það skref sem hér er stigið sé mikilvægt í að bæta upplýsingarétt almennings en í framhaldinu sé algerlega skýr ábending til stjórnvalda um að leggja mat á hvort hægt sé að stytta málsmeðferðartíma frekar þegar reynsla er komin á þennan ráðgjafa. Þeirri ábendingu er haldið til haga til stjórnvalda að halda áfram að þróa þetta.

Það kom líka fram sú ábending fyrir nefndinni um 40 dagana, um rétt beiðanda til að kæra strax ekkert svar stjórnvalds til úrskurðarnefndar, að það væri vankantur á þeirri reglu vegna þess að þá væri ekki fjallað um málið á tveimur stjórnsýslustigum. Nefndin taldi engu að síður mjög mikilvægt að hafa þann rétt til þess að hafa ástandið ekki eins og það er núna þar sem stjórnvöld komast upp með að svara engu lengi og það er ekkert sem beiðandi getur gert í því.

Það var einnig töluvert rætt um sjálfstæðar úrskurðarnefndir í nefndinni og hvort rétt væri að hafa sjálfstæða úrskurðarnefnd eða að þetta væri inni í ráðuneytunum. En það er annað mál.

Aðeins að lokum varðandi úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Nefndin fjallaði á fundum sínum um aðgang að gögnum um umhverfismál. Með frumvarpinu er lagt til að sérlög um upplýsingarétt um umhverfismál verði felld brott og færð efnislega inn í upplýsingalög með það að markmiði að einfalda regluverkið, láta það sama gilda. Sitt sýndist hverjum þar.

Það komu ábendingar frá Ófeig náttúruvernd um að með frumvarpinu væri verið að lögfesta takmarkanir á upplýsingarétti almennings um umhverfismál sem samrýmdist ekki Evróputilskipun. Leitaði nefndin sérstaklega eftir upplýsingum um þetta og kom fram að með frumvarpinu væri ekki stefnt að efnislegum breytingum á því sviði heldur væri þvert á móti verið að reyna að aðlaga þetta og samræma. Verið væri að færa ákvæði laga um upplýsingarétt um umhverfismál næstum því óbreytt inn í sérstakan kafla í upplýsingalögin til að þetta væri á einum stað. Tilskipuninni frá 2003 hefði ekki verið breytt frá því að lög um upplýsingarétt um umhverfismál tóku gildi árið 2006 og að sú ábending frá Ófeig náttúruvernd að tilskipunin á sínum tíma hefði ekki verið réttilega innleidd var í rauninni send til forsætisráðuneytisins frá nefndinni sem taldi nauðsynlegt að framkvæmd yrði sjálfstæð skoðun á því hvort við þyrftum að gera betur þegar kemur að upplýsingarétti almennings er varðar umhverfismál. Er forsætisráðuneytinu falið sérstaklega að kanna hvort ástæða sé til lagfæringar á því sviði. En nefndin vildi ekki tefja allt þetta mál þegar um væri að ræða lagaákvæði sem hafa verið í gildi frá árinu 2006.

Þetta var það sem ég vildi helst fara yfir í örstuttu máli. Frumvarpið er til bóta þó að auðvitað sýnist sitt hverjum. Þeirri sem hér stendur hefði hugnast mjög að hafa þennan tímafrest allan mun þrengri en ég vona að stjórnvöld virði vilja nefndarinnar til að hraða þeim málum eins og frekast er unnt.