149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlanda.

684. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. sérn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég kem hér fram sem framsögumaður hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við vorum með þetta mál til umfjöllunar, en tillaga til þingsályktunar hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda með því að efla og samræma starf stjórnsýslunnar og annarra aðila á þessu sviði. Ráðgjafarnefndin verði m.a. skipuð þeim þingmönnum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem sitja í stjórnsýsluhindranahópi Norðurlandaráðs.“

Það er Íslandsdeild Norðurlandaráðs sem stendur að þessari tillögu.

Í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjölluðum við um málið og fengum til okkar gesti. Það má kannski draga viðbrögðin saman þannig að öllum fannst hugmyndin ágæt, fín, og gæti alveg leitt eitthvað fínt af sér, en tillagan væri frekar óskýr með afmörkun starfssviðs þessarar ráðgjafarnefndar, hvar hún ætti heima í stjórnsýslunni, um hvernig samspil hennar væri og annarra nefnda sem vinna að afnámi stjórnsýsluhindrana á ýmsum vettvangi, t.d. hjá dómsmálaráðuneytinu. En auðvitað væri alltaf gott að vinna sem best að því að afnema stjórnsýsluhindranir til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlanda.

Skemmst er frá því að segja að nefndin telur mjög mikilvægt að unnið verði áfram að því að efla og samþætta þá vinnu sem unnin er á vegum ráðuneytanna að þessu markmiði og í samstarfi við önnur Norðurlönd til að einfalda regluverkið til hagsbóta fyrir borgarana. Nefndin leggur til að málinu verði vísað til forsætisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna til að taka á akkúrat þeim óvissuþáttum sem ég rakti hér stuttlega og komið er inn á í nefndarálitinu.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Helga Vala Helgadóttir formaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé framsögumaður, Líneik Anna Sævarsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Óli Björn Kárason, Þorsteinn Sæmundsson og Þórarinn Ingi Pétursson.