149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

samstarf vestnorrænu landanna um tungumál í stafrænum heimi.

463. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um samstarf vestnorrænu landanna um tungumál í stafrænum heimi. Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, og Ragnheiði Helgu Þórarinsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Með tillögunni er skorað á ríkisstjórnina að stofna formlegan samstarfsvettvang vestnorrænu landanna um framtíð íslensku, færeysku og grænlensku. Fyrsta skrefið verði stofnun starfshóps með einum til tveimur fulltrúum frá hverju landanna sem hafi þekkingu á málfræði og máltækni. Hlutverk starfshópsins verði að semja skýrslu með yfirliti um stöðu og framtíðarhorfur tungumálanna þriggja, ásamt yfirliti um þann máltæknibúnað (hugbúnað og gagnasöfn) sem til eru fyrir hvert málanna og leggi fram tillögur að samstarfi um máltæknibúnað og önnur viðbrögð við stafrænu byltingunni. Tillagan er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2018, sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 5. september 2018 í Þórshöfn í Færeyjum.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að staða tungumála í hinum stafræna heimi er yfirleitt því verri sem færri tala þau og því má búast við að íslenska, færeyska og grænlenska standi höllum fæti. Í könnun Evrópuverkefnisins META-NET árið 2012 kom í ljós að íslenskan stæði næstverst þeirra 30 tungumála sem könnunin tók til. Færeyska og grænlenska voru ekki meðal þeirra, en ljóst má vera að staða þeirra er enn verri. Þótt málin séu öll töluð af mjög fáum er staða þeirra vissulega nokkuð mismunandi. Íslenska og færeyska eru náskyld tungumál en grænlenska alls óskyld þeim, og færeyska og grænlenska hafa lengi verið í nánu sambýli við dönsku en íslenskan verið næsta einráð á Íslandi. Þrátt fyrir þetta er enginn vafi á því að löndin þrjú geta haft margvíslegt gagn af samstarfi á þessu sviði. Fyrsta skrefið í samvinnu landanna gæti verið stofnun starfshóps sem hefði það hlutverk að semja skýrslu sem innihéldi yfirlit um stöðu og framtíðarhorfur tungumálanna þriggja; yfirlit um þann máltæknibúnað sem til er fyrir hvert málanna; og tillögur að samstarfi um máltæknibúnað og önnur viðbrögð við stafrænu byltingunni.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. málsliður tillögugreinarinnar orðist svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina í samráði við landstjórn Færeyja og heimastjórn Grænlands að stofna formlegan samstarfsvettvang vestnorrænu landanna um framtíð íslensku, færeysku og grænlensku.“

Við töldum mikilvægt að þessu væri bætt við. Að sjálfsögðu eiga öll þrjú ríkin að eiga sæti við borðið og hafa eflaust öll eitthvað til málanna að leggja. Með samvinnu fæst yfirleitt víðari mynd og oft á tíðum betri niðurstaða.

Að lokum langar mig að segja: Hér á landi hefur verið starfrækt verkefni um nokkurt skeið, stofnun sem heitir Almannarómur, sem hefur það verkefni að færa íslenskuna yfir á stafrænt form. Það er mjög áhugavert verkefni sem er komið aðeins áleiðis, kannski ekki mjög langt en skiptir máli. Ég tel að reynslan af því verkefni og áframhaldandi vinna við það gæti akkúrat nýst bæði grænlensku og færeysku, til að styrkja þau mál.

Undir þetta álit rita Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður nefndarinnar, sú sem hér stendur, framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Hv. þm. Smári McCarthy var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að þessi tillaga verði samþykkt með meðfylgjandi breytingartillögu.