149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

húsaleigulög.

795. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, með síðari breytingum. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti eins og greint er frá í nefndarálitinu, auk þess sem umsagnir bárust, en með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 50. gr. húsaleigulaga þannig að leigusamningur falli ekki sjálfkrafa úr gildi við lok starfssamnings ef leigjandi er starfsmaður leigusala. Þess í stað verði uppsögn leigusamningsins heimil báðum aðilum. Samkvæmt ákvæðinu er leigjanda heimil fyrirvaralaus uppsögn samningsins, innan átta vikna frá starfslokum, en um heimild leigusala til uppsagnar fari samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 56. gr. húsaleigulaga.

Eins og kemur fram í stjórnarsáttmálanum er þar talað um að bætt réttarstaða leigjenda sé býsna mikilvægt verkefni og eigi að taka fyrir á þessu kjörtímabili. Í raun má segja að þetta frumvarp sé afurð af þeim vangaveltum, auk þess sem í lífskjarasamningnum er talað sérstaklega um þau atriði. Þess vegna er mikilvægt að þetta mál sé tekið fyrir nú og klárað. Það hefur borið á því, eins og hv. þingmenn vita, að réttarstaða leigjenda þyki ekki nægilega traust, sérstaklega þegar um er að ræða að leigjendur séu jafnframt starfsmenn leigusala.

Í því sambandi komu fram þau rök, sem eru býsna mikilvæg, að húsnæðisöryggi hljóti að trompa hagsmuni annarra af því að geta leigt húsnæðið út aftur. Í rauninni er frumvarpið lagt fram í þeim anda.

Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka iðnaðarins var lýst nokkrum áhyggjum af því hverjar afleiðingar frumvarpsins yrðu ef það tæki gildi og m.a. viðraðar áhyggjur af því að það gæti verið erfitt fyrir leigusala að hafa ekki strax aðgang að húsnæði sínu en þá vísa ég aftur til þess að þrátt fyrir það óhagræði sem kann að skapast hjá vinnuveitanda við starfslok starfsmann sé húsnæðisöryggið væntanlega alltaf mikilvægara.

Nefndin tekur að vissu leyti undir þær áhyggjur sem birtast í umsögninni en það breytir engu að síður ekki þeirri staðreynd að nefndin telur mikilvægt að þessi lagabreyting nái fram að ganga.

Við umfjöllun í nefndinni var bent á að orðalag 1. málsliðar 1. gr. frumvarpsins væri ekki nægilega skýrt þegar kæmi að því að ræða um tegundir húsnæðis, til að mynda þegar ekki væri um heila íbúð eða húsnæði að ræða. Nefndin tekur tillit til þess í breytingartillögum sínum.

Á það var bent að það gæti verið óskýrt þegar starfsmaður fengi íbúðarhúsnæði á leigu að tvennu leyti, annars vegar að það væri ekki skýrt hvort ákvæðið tæki til leigusamninga þar sem endurgjald væri annað en peningar, svo sem vinnuframlag, og hins vegar væri óvíst hvernig færi með tilvik þar sem enginn skriflegur samningur lægi fyrir. Nefndin telur hins vegar að það sé ótvírætt markmið með frumvarpinu að ákvæði 1. gr. taki til þessara tilvika og bendir á að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. húsaleigulaga teljist aðilar hafa gert ótímabundinn leigusamning hafi þeir vanrækt að gera skriflegan leigusamning.

Nefndin leggur til breytingu til að taka skýrar á því.

Í umsögn Alþýðusambandsins var bent á að atvinnurekendur gætu komið sér hjá þeim auknu kröfum sem felist í frumvarpinu með því að gera þá leigusamninga og ráðningarsamninga til styttri tíma. Verði það svo telur nefndin að markmið frumvarpsins skili sér ekki að öllu leyti og því leggur nefndin til þá breytingu að tímabundinn samningur um afnot af húsnæði geti aldrei verið til skemmri tíma en tímabundinn ráðningarsamningur starfsmanns.

Að lokum vísa ég að öðru leyti, herra forseti, í álitið en vil benda sérstaklega á seinustu málsgrein nefndarálitsins þar sem nefndin beinir því til félagsmálaráðuneytisins að taka til athugunar aðstæður þeirra starfsmanna sem búa í húsnæði í eigu atvinnurekenda og hvernig bregðast megi við slæmum aðbúnaði leigjenda í slíku húsnæði eða alvarlegum vanefndum á slíkum samningum. Þetta er mikilvægt. Þó að það heyri ekki beinlínis undir þessa löggjöf getur það að einhverju leyti átt til að mynda undir lög um heilbrigðisnefndir, lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. En þarna væri skynsamlegt að ráðuneytið skoðaði sérstaklega hvort hægt væri með betri lagaumbúnaði að taka á slíkum tilvikum. Eins og þingmönnum er kunnugt um er líklegt að þörfin fyrir skammtímavinnuafl verði áfram til staðar og því mikilvægt að þegar til að mynda skammtímabúseta er í húsnæði sem kannski er ekki beinlínis atvinnuhúsnæði þannig að lög um heilbrigðisnefndir og þess háttar ætti kannski ekki endilega við verði skoðað sérstaklega hvort það mætti gera.

Nefndin er með breytingartillögur sem fram koma í nefndarálitinu og stendur sameiginlega að álitinu. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Hv. þingmenn Halldóra Mogensen, Anna Kolbrún Árnadóttir og Vilhjálmur Árnason skrifa öll undir álitið með fyrirvara en aðrir nefndarmenn sem undir álitið rita eru hv. þingmenn Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Andrés Ingi Jónsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson og Halla Signý Kristjánsdóttir.