149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

vinnsla persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

555. mál
[15:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ein af athugasemdunum varðar aðgerðaskráningu í tölvukerfum og í frumvarpinu var reglugerðarheimild, sem nefndin afnumdi reyndar, sem kvað á um að upplýsingakerfi sem voru sett á fót fyrir 6. maí 2016 væru undanþegin kröfu um aðgerðaskráningu. Bent var á að samkvæmt reglugerð þar áður áttu þessi kerfi samt sem áður að hafa aðgerðaskráningu en nefndin kom þó til móts við sjónarmiðið með því að setja sólarlagsákvæði sem við erum hér að greiða atkvæði um. Það gildir til 6. maí 2026, þ.e. á þeim tímapunkti eiga öll hugbúnaðarkerfi og upplýsingakerfi að hafa þessa aðgerðaskráningu.

Að mínu mati ætti krafa um þessa aðgerðaskráningu að vera til staðar nú þegar. Ég tel hana vera til staðar samkvæmt gildandi reglugerð og mér finnst að hún eigi áfram að vera. Þótt ég átti mig á því að það kosti tíma, erfiði og peninga að setja inn aðgerðaskráningu í ýmis upplýsingakerfi finnst mér það ekki vera nægilega góð ástæða fyrir Alþingi til að slaka á þeirri annars sjálfsögðu kröfu.

Því greiði ég atkvæði gegn þessu tiltekna ákvæði.