149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

grænir skattar og aðgerðir í umhverfismálum.

[10:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Síðastliðinn föstudag stóð ég á Austurvelli ásamt hæstv. ráðherra og fjölda hv. þingmanna og ræddi við þátttakendur loftslagsverkfallsins. Rétt um þriðjungur þingmanna mætti til fundar við börn og ungmenni sem krefjast aðgerða vegna hamfarahlýnunar og ég efast reyndar um að nokkur mótmælahópur hafi náð viðlíka samtali við þingmenn og ráðherra en akkúrat þessi hópur.

Mér eru minnisstæð orð hæstv. ráðherra á þessum fundi þar sem hann þakkaði þessum ungu aðgerðasinnum fyrir aðhaldið en hvatti þá sömuleiðis til að horfa með bjartsýni á þær jákvæðu aðgerðir sem ríkisstjórnin hefði ráðist í og sem stæði einnig til að framkvæma á næstu árum til að stemma stigu við hamfarahlýnun og til þess að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Á sama fundi benti ég aðgerðasinnum á að fylgjast með breytingum á fjármálaáætlun sem til stóð á þeim tíma. Því eins og við hæstv. ráðherra vitum eru orð ódýr en aðgerðir gegn hamfarahlýnun kosta. Fjármálaáætlunin er því mun nákvæmari spámiðill um alvöruáform ríkisstjórnarinnar en fögur fyrirheit í ræðu og riti.

Nú hafa þessar breytingar komið fram og meðal tillagna ríkisstjórnarinnar er að tekjur vegna nýrra grænna skatta muni nema 11,5 milljörðum kr. á næstu fimm árum. Til að ná þessum fjármunum í kassann verður lagt gjald á sorpurðun sem og á flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir til notkunar í kæli- og frystitækjum. En í hvað fara þessar auknu skatttekjur? Ég fæ ekki betur séð en að til standi að skera niður fjárframlög til umhverfismála á tímabilinu miðað við það sem upphaflega var áætlað um 10%.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Á virkilega að sækja 11 milljarða í umhverfisskatta sem þó skilar sér í samdrætti til málaflokksins upp á 10%?