149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

grænir skattar og aðgerðir í umhverfismálum.

[10:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr um græna skatta. Það er mikið fagnaðarefni, að mínu mati, að ríkisstjórnin hafi nú stigið það skref að setja inn slíkan hvata sem lengi hefur vantað. Hvatinn felst fyrst og fremst í því að verið er að hækka verð á því að urða sorp, sem er grundvallaratriði til að hvetja til þess að rusl verði meira endurunnið og endurnýtt. Á það hefur lengi verið bent hérlendis að of ódýrt hafi verið að urða sorp en aldrei áður hefur verið gripið til neinna aðgerða hvað það varðar. Ef við lítum til Norðurlanda og fleiri Evrópuríkja er þetta mjög algeng aðferð til að reyna að hvetja til þess að gripið sé til umhverfisvænni aðgerða en urðunar sem er neðst í svokölluðum úrgangspíramída og það sem við eigum helst að forðast. Hið sama má segja um hin svokölluðu f-gös eða flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir. Þar er verið að setja inn skatt sem á að hvetja til þess að notkun þeirra verði hætt í skrefum. Ef við lítum á það hvaða máli þetta skiptir í stóra samhenginu í loftslagsmálunum eru úrgangsmál ábyrg fyrir um 7% af útlosun Íslendinga og f-gösin fyrir öðrum 7% þegar kemur að beinum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda.

Ég hef lýst því yfir að ekki verði hreyft við fjármagni til loftslagsmála með þeim breytingum sem hafa verið kynntar í fjármálaáætlun. Ég hyggst einfaldlega standa við það. Ef prósentutölur um aukningu eru skoðaðar erum við að tala um 15% aukningu nú þegar á fjárlögum 2019 miðað við 2017 til umhverfismála og sýnist mér að það fari upp í um 34% árið 2024.