149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

málefni SÁÁ.

[10:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég hef stundum komið hingað og beint orðum mínum að hæstv. heilbrigðisráðherra og ætla ég að þakka henni fyrir að vera með okkur hér í dag þannig að ég hef tækifæri til að gera það enn á ný.

Gleðiefnið í sambandi við SÁÁ og þá fjárveitingu sem við samþykktum fyrir jólin um að veita 150 millj. kr. til starfseminnar hjá SÁÁ er náttúrlega sá samningur sem þegar hefur náðst upp á 100 milljónir í göngudeildirnar. Markmiðið var eins og við skildum það, eða a.m.k. flest okkar, að eyða biðlistum inn á Vog. Þá skilst mér að eftir standi 50 milljónir sem ekki hefur, samkvæmt samtali mínu nú í morgun, verið samið um enn, því miður. Vonandi er það á góðri leið og það er það sem mig langar til að nefna við hæstv. heilbrigðisráðherra.

Nú vitum við, samkvæmt landsfundi SÁÁ, að það er að fjölga á biðlistanum inn á Vog. Nú bíða 650 manns eftir meðferð og aðstoð á Sjúkrahúsinu Vogi. Þær tölur sem ég hafði áður voru um 600. Það góða í stöðunni eru nýjustu tölur landlæknis sem sýna að dregið hefur úr ótímabærum dauða vegna ofneyslu ópíóíða og lyfjaeitrunar. Á árinu 2018 létust 39 einstaklingar vegna slíkrar eitrunar.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í auknar forvarnir. Hvað líður þeim samningi með 50 milljónirnar inn á Sjúkrahúsið Vog? Og hvaða forvarnir er hæstv. heilbrigðisráðherra að vinna í núna af fullum krafti eins og ég trúi að hún sé að gera til að við sjáum áframhaldandi jákvæða þróun í fækkun dauðsfalla hjá fólki vegna ofneyslu ópíóíða?