149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

rammaáætlun.

[10:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Kannski er ástæðan fyrir því að ég hef ekki enn hitt ykkur í nefndinni sú að það er ekki tímabært fyrr en hægt verður að greina nefndinni frá því hvað er fram undan. Ég vil leggja áherslu á að í stjórnarsáttmála er fyrst og fremst talað um að bæta raforkuöryggi og áhersla er lögð á að friðlýsa svæði í verndarflokki rammaáætlunar sem samþykkt var 2013. Þetta er það leiðarljós sem ég hef haft í vinnunni, þ.e. að hefja friðlýsingu svæða í verndarflokki rammaáætlunar. Staðan á því er þannig að sendar hafa verið auglýsingar um friðlýsingu verndarflokka í vatnsafli, þegar kemur að 2. áfanganum sem samþykktur var 2013, eins og fyrr segir, og við erum að vinna afmarkanir fyrir jarðhitasvæðin, sem hefur reynst örlítið erfiðara en ég átti von á í upphafi, en við vonumst til að geta sent það frá okkur fyrir sumarið.

Þetta er sú forgangsröðun sem ég hef haft á hlutunum en samtímis hefur verið til skoðunar sú niðurstaða verkefnisstjórnar 3. áfanga, sem skilaði tillögum sínum til ráðherra fyrir um tveimur árum. Ég hef talið mikilvægt að vinna hlutina í þessari röð í samræmi við þær leiðbeiningar sem eru í stjórnarsáttmála. Ekki er tímabært að segja til um það með hvaða hætti áætlunin verður lögð fyrir þingið, en við stefnum að því að gera það á næsta þingvetri.