149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

rammaáætlun.

[10:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Stjórnarsáttmálinn hefur ekki breyst neitt frá því að hann kom fram þannig að það er alveg ljóst að þar er áhersla á að friðlýsa svæði í 2. áfanga rammaáætlunar. Það hefur ekki breyst neitt og ég hef unnið eftir því.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, og það er líka verið að vinna að því í ráðuneytinu, því að lögum samkvæmt ber að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Hún verður á dagskrá þingsins á næsta ári. Það tókst ekki að ljúka því á þessum þingvetri. Það er alls ekki verið að mola kerfið niður, langt í frá. Hér er unnið eftir þeim lögum og reglum sem gilda. Þingmaðurinn þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég vinni að því leynt eða ljóst að mola niður kerfið um rammaáætlun sem ég tel að sé gríðarlega mikilvægt kerfi til að leiðbeina okkur akkúrat um það hvar við eigum ekki að ráðast í virkjanir og hvar séu möguleikar á að ráðast í virkjanir. Eins og við vitum er orkunýtingarflokkurinn þannig (Forseti hringir.) að þar þarf að skoða hlutina betur í hverju tilfelli fyrir sig.