149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

niðurskurður til mennta- og menningarmála.

[11:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar og áhuga hans á menntamálum og fyrir að vilja vera í því liði að vera áfram í stórsókn í menntamálum, það er allt gott og vel. Hv. þingmaður minntist á menninguna en ef við lítum á árið 2020 verður áfram aukning. Það er fyrst og síðast vegna þingsályktunartillögu um að efla íslensku, sem er opinbert mál, og munum við einnig setja aukið fé í bókasafnssjóð fyrir höfunda. Þetta er gert, og allar þær aðgerðir sem við höfum farið í varðandi menninguna og bækurnar og annað slíkt, til þess að auka þann fjölda bóka sem er fyrir börn og ungmenni í þeim tilgangi að fá fleiri til að lesa og bæta þann alþjóðlega samanburð sem við höfum í lestrarfærni.

Nú á dögunum var yfirmaður menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni með fyrirlestur hjá HÍ og hann sagði að honum litist mjög vel á þær aðgerðir sem við værum að fara í og sæi að sett væru langtímamarkmið, sem væri mjög gott. Það verður svo sannarlega staðið við allt sem við höfum sagt (Forseti hringir.) og ég er mjög stolt yfir því sem við höfum nú þegar áorkað.