149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umsögn fjármálaráðs um fjármálastefnu.

[11:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er einmitt kjarni máls. Frá upphafi stjórnartíðar þessarar ríkisstjórnar hefur verið varað við því að þær efnahagsspár sem hún hefur unnið sínar áætlanir út frá séu of bjartsýnar. Enn er varað við því og enn skellir ríkisstjórnin skollaeyrum við því. Það sem vekur enn fremur athygli í umsögn fjármálaráðs eru skýr varnaðarorð um að annars vegar sé það varúðarsvigrúm sem hér er gefið engan veginn nægjanlegt og engin rök færð fyrir því af hverju það er stillt af miðað við 0,4% eða einhverja aðra tölu, og í öðru lagi, sem snertir nú málaflokk hæstv. ráðherra beint, séu afkomuforsendur sveitarfélaga mjög bjartsýnar. Þess vegna horfir maður enn og aftur til þeirrar stöðu að ríkisstjórnin er hér í sögulegu fráviki á grundvelli tiltölulega lítils fráviks í heildarhagvexti. Það gleymist að taka tillit til þess að hagvöxtur ársins 2018 var miklum mun meiri en gert var ráð fyrir. Þá er hér verið að endurskoða fjármálastefnu í fyrsta skipti á veikum forsendum nema (Forseti hringir.) ríkisstjórnin trúi því að efnahagsforsendur séu mun veikari en ráð er fyrir gert. Er ekki mikilvægt að hlusta á varnaðarorð fjármálaráðs, hæstv. ráðherra? Getum við ekki verið sammála um það?