149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umsögn fjármálaráðs um fjármálastefnu.

[11:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Við getum öll verið sammála um að það sé skynsamlegt og nauðsynlegt, enda innbyggt í kerfið, að fjármálaráð veiti okkur leiðsögn og fylgist með og leggi til einhverjar ábendingar og það er nákvæmlega það sem við erum að gera.

Hv. þingmaður kemur reglulega hingað upp, hefur gert það núna á undanförnum árum og talað um að við séum að styðjast við of bjartsýnar hagspár. Það er einfaldlega þannig að inn í þetta kerfi opinberra fjármála, lagaumhverfisins skulum við styðjast við þessar opinberu hagspár og engar aðrar. Við höfum hins vegar skilið eftir umtalsverðan afgang þó að hv. þingmaður hafi viljað ganga miklu lengra og skila meiri afgangi. En þá er kannski rétt að rifja upp að flokkur hv. þingmanns var með fjármálaráðuneytið í átta, níu mánuði og lagði fram sínar hugmyndir. Hvernig hafa þær staðist? Kannski þarf hv. þingmaður þegar hann er búinn að vera að gagnrýna hér útgjöld núverandi ríkisstjórnar og stöðuna sem uppi er núna að koma hér upp og greina frá því hvar Viðreisn ætlar að skera niður í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, í velferðarkerfinu eða í fjárfestingum. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að gera allt. Í þeirri stöðu sem við erum í erum við að reyna að gera eins vel og hægt er. (Gripið fram í: Ertu nú að segja satt?)