149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

svör við fyrirspurnum.

[11:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa lagt orð í belg vegna þess að ég spurði hæstv. dómsmálaráðherra í mars sl. um kostnað vegna skipunar landsréttardómara. Ég ítrekaði þá fyrirspurn 20. maí í sérstökum umræðum um stöðu Landsréttar og fékk þá þau svör að síðar í þeirri viku yrði svarið, sem væri tilbúið inni í ráðuneyti, sent hingað til þingsins.

Nú ætla ég ekki að ætla hæstv. dómsmálaráðherra að fara hér með fleipur og get ég því ekki skilið orð hennar öðruvísi en svo að svarið sé komið til þingsins. Þá veltir maður fyrir sér hvar svarið sé. Hvers vegna hefur það ekki borist okkur fyrst það er komið til þingsins? Að minnsta kosti sagði hæstv. dómsmálaráðherra að svarið færi úr ráðuneytinu í þeirri sömu viku þannig að nú spyr ég hæstv. forseta: Hvar er svarið?