149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[11:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson andsvarið. Við stöndum í því daginn út og daginn inn að færa til fjármuni á milli hópa með einum eða öðrum hætti þannig að kannski svarar það að einhverju marki öllum hinum spurningunum sem á eftir koma. Það er einhvern veginn það sem við bjóðum okkur fram til og erum kosin til að gera og hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við alltaf og stöðugt að færa fjármuni eða verðmæti á milli mismunandi hópa.

Svo er atriðið sem snýr að því hvort það eigi ekki við að einhverju marki önnur sjónarmið af því að þarna er sirka helmingurinn sem á við og þetta er staða sem fólk velur sér ekki. Þó að ég myndi veðja á að gætu menn valið lægi það sirka til helminga, en hvað veit maður? Það er mismunandi eftir þjóðum og menningarheimum.

Ég treysti mér ekki til að nefna einhver dæmi bara þar sem ég stend núna en treysti mér þó til að segja að virðisaukaskattskerfið held ég að sé ekki góð leið til að taka á svona málum. Ég yrði að gefa mér rýmri tíma til að útfæra hvernig slíkt yrði gert og þá er alveg örugglega fleira líka sem kæmi upp sem mætti flokka sem sambærilegar vörur og t.d. tíðavörurnar sem er verið að fjalla um í þessu máli. En ég yrði að gefa mér aðeins meiri tíma, þetta var meira prinsippið sem ég var að tala fyrir hérna áðan en ég held að virðisaukaskattskerfið sé ekki ekki gott kerfi til að gata mjög mikið með undanþágum.