149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er einmitt mjög mikilvægur vinkill. Við sáum þetta klikka trekk í trekk. Mér skildist af mínum samtölum við ráðuneytin að talsambandi hafi ekki alveg verið náð, ekki verið nægilega mikið. Mér skilst að það hafi meira að segja gerst í startholunum, þ.e. ekki þegar málið var komið í samráðsgáttina heldur fyrr þegar sóst var eftir að fá aðstoð og dómgreind dómsmálaráðuneytisins að ráðuneytin hafi ekki alveg náð saman. Ég get ekki sagt til um hverjum það er að kenna, ég bara veit það ekki, en þetta er klárlega eitthvað sem þarf að laga. Það þarf að fá aðila eins og lögregluna og ríkissaksóknara mun fyrr að borðinu. Það hefur eitthvað klikkað og það er algjörlega óljóst hvað veldur því. Það var mjög leiðinlegt með þetta mál, sérstaklega af því að það kemur inn til nefndar þar sem nánast hver einasti þingmaður í nefndinni, þvert á flokka, er sammála markmiði frumvarpsins um að hér eigi að vera neyslurými og að það eigi að koma til móts við þá einstaklinga sem eru í mjög erfiðri stöðu vegna fíknar og fíkniefnaneyslu og að það eigi að koma fram við þá einstaklinga sem sjúklinga en ekki glæpamenn.

Ég fagna þeirri niðurstöðu sem við komumst að, það virðist líka vera eining innan nefndarinnar um að það eigi að ganga skrefinu lengra, eða skoða það a.m.k., og afnema refsingar fyrir neysluskammta. Það er stórkostleg niðurstaða og við getum fagnað því. Ég vona að heilbrigðisráðuneytið finni fyrir þeim stuðningi sem það hefur nú til að fara í þá vinnu og skoði að taka þetta mikilvæga skref núna. Þá kannski verða þessi mistök sem urðu í samráðinu til góðs í lokin.