149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Það er nákvæmlega það, að fá eitthvað jákvætt út úr þessu vegna þess að þetta er mál sem var mikil samstaða um í nefndinni, eins og hv. þingmaður kom inn á, og hér á þingi, í þingsal. Það var ekki hægt að heyra annað á umræðum fyrr í vetur og málið hefur fengið töluverða umræðu. Ég velti fyrir mér núna þar sem það þarf að fara ofan í málið aftur að við erum a.m.k. mörg sem óskum þess að það verði hugsanlega til þess að það verði útvíkkað og að varsla neysluskammta verði gerð refsilaus.

Þá kemur spurningin: Er eitthvað að mati hv. þingmanns sem við getum gert til að tryggja að verði farið í þá vinnu komi ekki sama staða upp aftur, að það sé eitthvað í kerfinu sem segir: Þetta gengur ekki upp? Nú erum við í velferðarnefnd í sambandi við velferðarráðuneytið, en getum við beint málinu til hins ráðuneytisins, ráðuneytis dómsmála, sem kemur að málinu? Væri rétt að fá aðra fastanefnd Alþingis með okkur í málið? Getum við gert eitthvað til að tryggja að verði málið útvíkkað núna í meðförum ráðuneytanna lendi það ekki aftur í sama einskismannslandi að ári? Hvað heldur hv. þingmaður um það?