149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Mér skilst, og þetta er nokkuð sem ég vissi ekki áður en við fengum þessar upplýsingar í velferðarnefnd, að það að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum sé alfarið í höndum heilbrigðisráðherra. Þar af leiðandi held ég að það sem við getum gert sé að hvetja heilbrigðisráðherra til dáða í þessu efni og fara að taka þetta skref, sérstaklega í ljósi þess að það sem hefur komið úr þessari vinnu er augljós stuðningur við það verkefni. Við þingmenn getum bara stutt við og aðstoðað heilbrigðisráðherra og hvatt hana áfram. Það er eina leiðin sem ég sé fyrir mér að þetta gæti gengið.

Það er ljóst núna að þetta verkefni er í höndum heilbrigðisráðherra, að mér skilst, ef ég fer rétt með. Þær upplýsingar komu frá dómsmálaráðuneytinu. Þá er það frekar einfalt. Við hvetjum ráðherra til dáða í þessu efni og beitum þrýstingi og minnum hana á að þetta er vilji velferðarnefndar og þar af leiðandi vonandi vilji meiri hluta þingsins.