149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:57]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég tek til máls m.a. vegna þess að ég er einn af þeim sem rita undir þetta nefndarálit og til þess að undirstrika þann stuðning við efni frumvarpsins sem í álitinu felst. Eins og hefur komið fram í ræðum annarra hv. þingmanna er umbúnaðurinn um málið hins vegar akkúrat eins og það er komið til þingsins með þeim hætti að það er mat nefndarinnar að það þurfi að vinna það betur. Ég held að ég geti talað fyrir munn flestra nefndarmanna að við vonum svo sannarlega að málið komi fljótt aftur til þingsins svo að við getum gengið frá því að afgreiða þetta mikilvæga mál.

Þegar við fjöllum um málefni tengd fíkn hefur því miður verið allt of mikil lenska að líta þannig á að hún sé ekki vandamál alls samfélagsins, ekki heilsufarsvandamál, heldur eitthvert prívat vandamál þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Þannig er það alls ekki. Auðvitað brennur þyngst og erfiðast á þeim sem í hlut eiga en það er sannarlega samfélagsins að reyna að bregðast við og við eigum svo sannarlega, til að mynda með þessu úrræði, að reyna að hjálpa þessum einstaklingum.

Hugmyndin að þessum neyslurýmum er í grunninn afar góð og getur, a.m.k. í einhverjum tilfellum, leitt til þess að einstaklingar komist hreinlega í færi til að leita sér hjálpar, þótt síðar verði — þótt það sé í sjálfu sér ekki markmiðið með neyslurýmunum. Markmiðið með þeim er að horfast í augu við að þetta sé hluti af stærri vanda og að bregðast við, eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kom inn á áðan, með skaðaminnkuninni sem felst í þessu úrræði.

Ég hlakka til að taka aftur á þessu máli þegar það kemur aftur til hv. velferðarnefndar. Það er gleðilegt, eins og fleiri þingmenn hafa komið inn á, að það virðist vera ágætissamstaða um það í þinginu, milli allra þingflokka og þingmanna allra flokka, að þetta sé mál sem við eigum að klára og leysa. Ég vona að það verði undinn að því bráður bugur í heilbrigðisráðuneytinu að klára það.