149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

542. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Þetta nefndarálit með breytingartillögu er þannig til komið að eftir 2. umr. var þessu máli sem heitir breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum o.s.frv. vísað aftur til hv. umhverfis- og samgöngunefndar vegna ákveðinna upplýsinga sem höfðu komið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hér geri ég grein fyrir þessu nefndaráliti og breytingartillögu sem kemur þá inn til 3. umr.

Nefndin hefur fjallað um málið að nýju að lokinni 2. umr. Nefndin var upplýst um að sú breyting sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að álagðar dagsektir renni til hlutaðeigandi sveitarfélaga í stað rekstraraðila heilbrigðiseftirlits, gæti reynst erfið í framkvæmd. Ástæðan er sú að flestar heilbrigðisnefndir eru reknar í samstarfi margra sveitarfélaga og því gæti hið nýja fyrirkomulag aukið á flækjustig.

Nefndin fellst á þau sjónarmið og tekur fram að frumvarpið hefur ekki að geyma sérstakan rökstuðning fyrir breyttu fyrirkomulagi. Það er því ekki ljóst hvers vegna þörf er á breytingunni og mat á því hvaða áhrif það gæti haft í för með sér fyrir heilbrigðisnefndirnar liggur ekki fyrir en nefndin leggur til að frumvarpið verði engu að síður samþykkt með eftirfarandi breytingum, að við 16. gr. komi:

a. Í stað orðanna „hlutaðeigandi sveitarstjórna“ í 5. málslið e-liðar komi: rekstraraðila heilbrigðiseftirlits.

b. 6. málsliður e-liðar falli brott.

Þannig var að hv. þingmenn Karl Gauti Hjaltason og Bergþór Ólason voru fjarverandi við afgreiðslu og Rósa Björk Brynjólfsdóttir var fjarverandi við afgreiðsluna líka en skrifar undir þetta álit samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Undir þetta skrifa auk hennar sá er hér stendur, Ari Trausti Guðmundsson framsögumaður, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sigríður Á. Andersen og Vilhjálmur Árnason, hv. þingmenn.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.