149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar með breytingartillögu um frumvarp til umferðarlaga. Við 2. umr. var lagt til að hjálmaskylda á reiðhjólum yrði að 18 ára aldri. Sú tillaga fékk töluverða umfjöllun og komu vissar athugasemdir fram. Við tókum málið aftur inn til umhverfis- og samgöngunefndar til frekari umræðu og eftir að hafa farið yfir sjónarmið í þessu máli, bæði það að lengja hjálmaskylduna og hafa hana til 18 ára og að hafa hana ekki, komst nefndin að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að rétt væri að leggja til að hjálmaskyldan myndi miðast við grunnskólaaldur. Börn sem eru í grunnskóla þurfi að nota reiðhjólahjálma. Þessi skylda er mikilvæg upp á allt skipulag í skólastarfinu og allir eru sammála um mikilvægi notkunar á hjálmum.

Það sem gerir umfjöllun um þetta mál erfiða, að taka hina endanlegu afstöðu um hvað sé réttast að gera til að ná þeim markmiðum sem við erum öll sammála um — það eru allir sammála um markmiðin en þetta snýst um leiðirnar að markmiðunum. Markmiðin eru þau að auka umferðaröryggi og tryggja lýðheilsulega og umhverfisvæna ferðamáta. Það eru markmiðin sem allir eru sammála um að sé best að ná. Því miður höfum við bara ekki nógu mikið af gögnum til að byggja á til að taka hina endanlegu ákvörðun um hvað sé rétt leið. Hver er hjálmanotkunin? Hver er ávinningur af hjálmanotkun? Hverjar eru afleiðingarnar af hjálmanotkun og annað varðandi hjólreiðar? Hjólreiðar eru mjög vaxandi samgöngumáti og við höfum sett fjármuni í þær í samgönguáætlun og Vegagerðin forgangsraðar fjármunum, sveitarfélögin forgangsraða fjármunum í auknar hjólreiðar, hjólreiðasport er að aukast og annað slíkt. Þetta er samgöngumáti sem fer vaxandi. Því telur umhverfis- og samgöngunefnd afar mikilvægt að safna saman upplýsingum um þennan samgöngumáta, bæði um hjálmanotkun og aðrar upplýsingar sem geta aukið umferðaröryggi, aukið öryggi í hjólreiðum þannig að við getum hvatt til hjólreiða og auðveldað þær og ýtt undir að þær verði notaðar í auknum mæli í samgöngum hér á landi.

Við köllum mjög skýrt eftir því að í gang fari gagnaöflun sem gagnast þessum sjónarmiðum og til að ná þessum markmiðum, markviss áætlun um gagnaöflun hjá framkvæmdarvaldinu, hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu ásamt Samgöngustofu, Vegagerðinni og öðrum þeim sem komu að þessu. Við leggjum því til að á meðan við höfum ekki á frekari gögnum að byggja verði hjálmaskylda, sem hefur verið til 15 ára aldurs, út grunnskólagöngu barna til að þar verði visst samræmi.

Ég vil í því sambandi benda á að lögin taka ekki gildi fyrr en um næstu áramót þannig að ef einhver afgerandi gögn koma fram á þeim tíma þá höfum við tíma til að endurskoða það. Annars mun þetta gilda þangað til við komumst að því að einhver önnur leið sé betri.

Ég legg því til að þessi breytingartillaga fái þinglega meðferð og verði samþykkt eins og hún liggur fyrir.