149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þangað til önnur betri leið finnst, svo orðar flutningsmaður það. Eins og kom fram í framsöguræðunni er skortur á gögnum en það er samt tekin ákvörðun um breytingar og svo á að safna gögnum eftir á. Ég veit ekki hvort það á að vera til að staðfesta þessa niðurstöðu eða hvort það á að ganga til baka ef gögn segja annað.

Það kom fram fyrir í nefndinni að það er ákveðin hætta á tryggingarálagi fyrir þá sem eru 15 ára og eldri þegar viðkomandi verður sakhæfur. Mér fannst þau rök gera það að verkum að 18 ára aldurstakmarkið var kallað aftur. Samt var það skilið eftir í 16 árum þrátt fyrir að vafi léki á hvort tryggingafélögin tækju tillit til þess eða ekki. Við vitum ekkert hvort það er gert eða ekki. Því var slengt fram en það eru engin gögn sem segja af eða á, hvort viðkomandi án hjálms missi af tryggingum eða eitthvað svoleiðis.

Ég verð að gera athugasemd við þessi vinnubrögð, að taka ákvörðun fyrst og safna svo gögnum. Þó að gildistakan sé ekki fyrr en eftir hálft ár tekur tíma að safna gögnum. Ég hef unnið í vísindastarfi og veit að það tekur tíma og alveg örugglega meiri tíma en sex mánuði til að fá jafn afgerandi rök og hefur verið beðið um í þessu máli, þá í hina áttina, að afnema hjá hjálmaskylduna sem slíka. Það er ekkert sagt um hvaða aðrar leiðir eru mögulegar (Forseti hringir.) til að ná sama öryggismarkmiði og lagt er upp með. Það eru til aðrar leiðir en ekki einu sinni fjallað um þær.