149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að hjálmur sé öryggistæki á við beltin, það þýðir væntanlega sektir o.s.frv. þegar fram líða stundir ef það á að vera sambærilegt.

Það sem ég tel skorta hvað þetta mál varðar er umfjöllun í heildstæðari mynd. Allir voru sammála um vandamálið, það er ákveðið samræmingarvandamál fyrir 10. bekkinn sem er ekki með skyldu, en það þýðir ekkert endilega að lausnin sé að setja skyldu á 10. bekkinn. Það var ekkert fjallað um neinar aðrar lausnir, bara að við myndum setja þessa skyldu á, algjörlega óháð því hvaða hliðaráhrif það getur haft í stærra samhengi, áhrif á hin markmiðin um lýðheilsu og aukið umferðaröryggi. Það er skjalfest í öðrum rannsóknum að meiri reiðhjólaumferð eykur öryggi reiðhjólamanna yfirleitt, óháð því hvort þeir séu með hjálma eða ekki.

Það er gott að fá það sagt í ræðu að þetta hafi ekki áhrif á tryggingarálagið. Það eru þá gögn málsins sem eru komin fram í þingskjölum og skulu standa sem slík.

Að öðru leyti stendur gagnrýni mín varðandi það að það var einfaldlega aðeins ein leið skoðuð til að ná þessu samræmi og það var hjálmaskyldan. Það var ekkert annað í boði og meira að segja á milli 1. og 2. umr. kom tillagan upp í 18 ár bara alveg í lokin. Það var aldrei umræða í nefndinni um skyldu upp að 18 ára aldri, það var alltaf talað um 16 ára aldur. Ég var á nefndarfundunum og fylgdist með því og ég bjóst satt að segja við þessari niðurstöðu ef gögnin styrktu hana en þá kom tillagan um 18 ár, sem var síðan bakkað með sem er mjög fínt. Eftir stendur að aðrar leiðir voru ekki skoðaðar nægilega vel.