149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst svolítið djúpt í árinni tekið að segja að aðrar leiðir hafi ekki verið skoðaðar. Þá vil ég benda á að þau umferðarlög sem við erum að breyta núna hafa gilt frá 1987 þannig að það er búið að vera algjört frjálslyndi með hjálmaskyldu 15 ára og eldri. (Gripið fram í.) Þessi umræða hefur verið mikil og það hefur oft komið upp hvort það ætti að lengja hjálmaskylduna. Ef þetta er enn þá vandamál núna sýnir það að ekki hefur tekist að finna aðrar leiðir hingað til. Það er kannski það sem við vorum að bregðast við. Nefndin taldi rétt að fara varlega og ná þessu samræmi fyrir grunnskólann af því að það er gríðarlega mikilvægt atriði á sama tíma og farið verði að safna gögnum. Þegar það er komið sjáum við hvort þetta hafi einhver áhrif til batnaðar eða hvort tíminn verði nýttur í að finna aðrar leiðir.

Við erum hér með umferðarlög og umferðaröryggi er eitt af höfuðmálunum. Ég held að við séum bara að gæta að meðalhófi til þess að reyna að ná markmiðum okkar á sem bestan hátt. Ég vil benda á að þeir sem kvörtuðu mest undan hjálmaskyldunni töldu hana draga úr hjólreiðum. En það er enginn 16 ára unglingur á bíl, það er ekki fyrr en við 17 ára aldur að hann fær bílpróf þannig að þá fyrst, við þann aldur, erum við farin að keppa við aðra samgöngumáta. Ég tel okkur vera að fara varlega hér og held að það sé rétt (Forseti hringir.) að samþykkja þetta svona.