149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp til umferðarlaga sem snýr að 2. mgr. 50. gr. laganna. Það er þá:

„1. Við 2 mgr. 50. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Mælist ávana- og fíkniefni eða lyf skv. 1. mgr., sbr. 6. mgr. 48. gr., í þvagi ökumanns er honum óheimilt að stjórna ökutæki.“

Í öðru lagi:

„2. Í stað „50. gr.“ í 1. mgr. 95. gr. og 1., 5. og 7. mgr. 101. gr. komi: 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr., 3. eða 4. mgr. 50. gr.“

Skemmtileg upplesning og lofa ég að endurtaka þetta ekki.

Í núgildandi umferðarlögum segir í 2. mgr. 45. gr. a:

„Mælist ávana- og fíkniefni í blóði eða þvagi ökumanns telst hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki.“

Þetta hefur verið gagnrýnt með þeim rökum að mælist fíkniefnin eingöngu í þvagi en ekki í blóði sé ljóst að ökumaðurinn hafi neytt fíkniefnanna en sé ekki lengur undir áhrifum þeirra. Því eigi ekki að fullyrða í lögum að hann sé undir áhrifum og ekki eigi að svipta hann ökurétti.

Í breytingartillögunni er lagt til að ökumanni sem þannig er statt um að fíkniefni mælast í þvagi hans sé óheimilt að aka ökutæki en hins vegar er ekki slegið föstu að hann sé óhæfur til þess. Staðreyndin er sú að mælist fíkniefni í þvagi hans hefur hann neytt fíkniefna svo nýlega að þau mælast í þvaginu. Þótt svo vilji til að þau mælist ekki lengur í blóðinu er ekki við því að búast að ökumaður hefði getað mælt það sjálfur. Hann hefur því tekið áhættuna af akstrinum.

Það er alsiða í umferðarlögum að áhættutaka af því tagi er óheimil, óháð því hvort tjón hafi orðið af í hvert og eitt skipti. Dæmi er ölvaður ökumaður er lögreglan sér yfirgefa bifreið sína að afloknum akstri. Honum verður refsað og hann verður sviptur ökurétti þó að ekkert tjón hafi orðið af ölvunarakstri hans.

Hið sama má segja um hraðakstur, þótt hann hafi engu slysi valdið. Ökumaður sem mælist á ofsahraða í hraðamyndavél verður sektaður þótt hann hafi komist áfallalaust heim. Hann tók einfaldlega áhættu sem hann átti ekki sjálfdæmi um. Við því er reynt að sporna í umferðarlögum.

Með sömu rökum á löggjafinn ekki að senda þau skilaboð að þeir sem neytt hafa fíkniefna svo nýlega að þau mælast enn í þvagi þeirra megi taka áhættuna af því að setjast undir stýri. Ef einhverjum finnst þetta ósanngjarnt í garð þessarar ökumanna er rétt að hafa í huga að þeir geta forðast að lenda í þeirri stöðu með því að neyta ekki fíkniefnanna. Þeir þurfa ekki annað en að virða fíkniefnalög og þá er þetta ekkert vandamál.

Ef frumvarpið verður samþykkt verður opnað á að fjöldi manns sem nýlega hefur neytt fíkniefna setjist undir stýri hugsandi með sér að þetta hljóti að sleppa, þau séu bara í þvaginu. Því er lagt til að 2. mgr. 50. gr. umferðarlaga orðist með þeim hætti sem ég tilgreindi hér í upphafi og endurtek nú:

„Við. 2 mgr. 50. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Mælist ávana- og fíkniefni eða lyf skv. 1. mgr., sbr. 6. mgr. 48. gr., í þvagi ökumanns er honum óheimilt að stjórna ökutæki.“