149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vænti þess ekki að hv. þingmaður sé beinlínis hlynntur því að fólki sé refsað fyrir brot sem það hafi ekki framið. Sú tillaga sem hv. þingmaður gagnrýnir er afurð skýrslu og athugunar sem var gerð af heilbrigðisráðherra, af starfshópi sem ég sat í sjálfur. Það er óumdeilt að niðurbrotsefni í þvagi geti ekki eitt og sér sagt til um það hvort viðkomandi sé í vímu meðan á akstri stendur.

Nú er rosalega auðvelt fyrir hv. þingmann að segja einfaldlega að fólk eigi ekki nota vímuefni en þannig er nú bara í frjálsu samfélagi að fólk getur samt gert það heima hjá sér, í sínu einkalífi. Ég vænti þess fastlega, miðað við þessa ræðu, að hv. þingmaður sé mótfallinn því að vímuefnaneysla eigi að vera refsilaus, eins og ég tel. En aftur á móti: Jafnvel þótt fólk vilji refsa fólki fyrir vímuefnaneyslu, sem eitt og sér er afspyrnuvond skoðun ef út í það er farið, skil ég hreinlega ekki hvernig er hægt að vera hlynntur því að fyrir það brot eigi að refsa fólki fyrir brot sem fremur ekki.

Í frumvarpinu er tilgreint að farið verði eftir blóðprufu, sem er heldur ekki fullkominn mælikvarði en samt miklu skárri. Hann virkar til að mæla það sem er í blóði ökumannsins. Það er ekki þvag sem fer í gegnum heilann á ökumanni þegar hann keyrir heldur blóð og það er í blóði sem efni hafa áhrif á heilastarfsemi ökumannsins og þar með getu hans til að stjórna ökutæki.

Ég velti fyrir mér hvernig í ósköpunum hv. þingmaður myndi frekar vilja að farið væri eftir verri mælikvarða sem býður upp á að refsa saklausu fólki fyrir brot sem það hefur ekki framið í stað þess að hafa betri mælikvarða, eins og er samkvæmt frumvarpinu, sem virkar betur og er málefnalegri og nær sama markmiði, sem er að refsa fyrir vímuefnaakstur.