149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:25]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það er alveg rétt að það kom fram hjá framsögumanni, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, að hann væri þess fullviss um að þetta myndi ekki hafa áhrif. Bæði það og líka varðandi hjálmaskylduna, hvort það ákvæði sem var fyrirhugað að setja myndi kannski minnka eða slá á þá aukningu sem hefur orðið í hjólreiðum, þá væri auðvitað ekki gott að fara þá leið fyrr en væri búið að rannsaka alla þætti betur, líka varðandi hugsanleg áhrif á tryggingabætur, eigin áhættu eða eitthvað slíkt. Ég er alls ekki að fullyrða að svo sé en ég tel að menn eigi að stíga mjög varlega til jarðar ef þeir fá ábendingar um mögulegar afleiðingar í þá veruna. Það er þess vegna sem ég nefndi þetta. Þannig að ég fagna því.

Varðandi þvagið, ég ætla að klára það, þá er það þannig miðað við tillögu hv. þm. Bergþórs Ólasonar að það er raunverulega aðeins verið að veita lögreglunni heimild til að stöðva aksturinn. Þetta er refsilaust. Þannig að ef merkir í þvagi, sem getur verið á lögreglustöð eða út á vegum, þá er viðkomandi ekki leyft að halda áfram. Það hefur verið framkvæmdin en þarna er komin heimild fyrir lögreglu þótt refsilaust sé þangað til niðurstaða úr ítarlegri rannsókn berst.