149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[16:01]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara byrja á að andmæla því að flest hjólreiðaslys verði þannig að ekið sé á viðkomandi. Flest slys eru þannig að menn detta einfaldlega, missa stjórn á hjólinu. (Gripið fram í.) Oftast keyra bílar á gangandi fólk. Þá væri líka gott að hafa hjálm. Ég er bara að segja að ég vil hafa mörkin einhvers staðar. Okkur getur greint á um það.

Ég sagði líka í ræðu minni að ég myndi ekki fetta fingur út í 15 ár, jafnvel ekki 16, ég ætla ekki að gera það að neinu stórmáli. Ég er bara að segja að þegar menn eru komnir upp í 18 ár þá verður næst eitthvað meira. Ég lít svo á að hjólreiðar séu mjög mikilvæg heilsubót fyrir þessa þjóð og við vitum alveg að því fleiri sem hjóla þeim mun fleiri slys verða. En ég er að reyna að meta svolítið heildarhagsmunina í þessu. Sumir nenna ekkert að fara að hjóla og dröslast alltaf með hjálminn. Ég mun ekki nenna því, hv. þingmaður. Þá hætti ég að hjóla.