149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[16:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að ég sé búinn að hjóla einu sinni í ár og ég notaði hjálm. Mér fannst bara ekkert vit í öðru. Menn geta náttúrlega verið ósammála um hvort það sé einhver ástæða til að verja þennan haus en ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að við komum þeim skilaboðum á framfæri að við erum öruggari með hjálm. Ég held að það sama eigi við þegar við tölum um að lögleiða ljós á bifreiðum eða bílbelti, ég held að það sé enginn grundvallarmunur. Við erum að gæta að lífi, limum og heilsu. Kannski eigum við ekkert að skipta okkur af þessu. Kannski eigum við bara að leyfa fólki að keyra beltislaust. Það verður erfitt að segja að ef maður hjólar hratt þurfi maður að nota hjálm, að ef maður keyrir langt þurfi maður að nota bílbelti eða ljós. Það er voðalega erfitt að setja slík mörk, um það er ég sammála hv. þingmanni. Það er bara spurning um hvar mörkin eiga að vera.

Ég er samt mjög glaður með að hér hafi hv. þm. Helga Vala Helgadóttir komið í andsvar og tekið af allan vafa um að það er enn þá meiningarmunur á milli þeirra tveggja um ákveðið mál.