149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og gott að heyra að hann tekur undir það með mér að við ræðum oftar og reglulegar um loftslagsmálin. Þegar kemur að mengunartölunum var ég að vísa í skýrslu Hagstofunnar sem birt var, ef mig rámar rétt í, annaðhvort í byrjun þessa árs eða í lok síðasta árs.

Þar kom fram að Íslandi var það ríki innan ESB og EFTA sem var með mesta losun koltvísýrings frá hagkerfi á einstakling árið 2016. Það eru nýjustu tölurnar og inni í þeim tölum eru stóru póstarnir, stóriðjan og flugið. Það er rétt sem hv. þingmaður talar um, við þurfum að sjálfsögðu að taka stóru póstana inn í tölurnar. Við þurfum líka að fara að einblína á flugið og stóriðjuna, sem eru jú stórir mengunarvaldar. Þar getum við beitt skapandi hugsun og bæði sett á stýrigjöld eins og kolefnisgjaldið og flugvallarskatt eða flugskatt, líkt og til að mynda sænska ríkisstjórnin hefur lagt á varðandi flugferðir.

Síðan er það, af því að við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál er snúa að stjórnsýslunni, líka spurning sem hægt væri að velta fyrir sér hvort hið opinbera, stjórnkerfið, ætti þá í raun og veru að kolefnisjafna flugferðir sínar, hvort það ætti að ganga fram fyrir skjöldu. Við vitum að það er hið opinbera sem gengur fram fyrir skjöldu þegar kemur að aðgerðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Við getum ekki beðið eftir hinu frjálsa framtaki heldur er það akkúrat hið opinbera sem þarf að ganga á undan með góðu fordæmi.