149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég heyri að ég og hv. þingmaður erum á sömu blaðsíðu þegar kemur að orkuskiptum þegar kemur að bifreiðum og er leitt að heyra ef hv. þingmaður og fyrrverandi utanríkisráðherra hefur ekki fengið að velja sér rafmagnsbíl. Það hefur ekki verið mikil framsýni á þeim tíma en það hefði verið betra.

Af því að hv. þingmaður spurði mig í fyrra andsvari um bílaumferðina og talaði um að það væri jafnvel lítill hluti mengunarinnar og kom sömuleiðis í seinna andsvari að bílum og nauðsyn þess að efla hlut rafmagnsbíla í eigu hins opinbera þá tek ég undir það. En ég held líka þegar kemur að almenningssamgöngunum að við þurfum að fara í róttækar aðgerðir til að gera þær að raunhæfum valkosti fyrir fólk. Það eru hinar stórvirku og mikilvægu aðgerðir sem við þurfum að sameinast um. Ekki bara að skipta öllu út fyrir rafmagnsbíla, því að það hafa heldur ekkert allir efni á því að kaupa (Forseti hringir.) sér nýjan rafmagnsbíl, heldur líka styrkja til hliðar og samhliða því almenningssamgöngur. Ég treysti á það að hv. þingmaður komi með í þá vegferð.