149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að ég og hv. þm. Bergþór Ólason getum átt í miklum orðaskiptum um hvernig við getum stýrt flugsamgöngum til og frá landinu og einmitt í þá veru að einhver gjöld af þeim geti nýst til umhverfismála. (Gripið fram í.) Já, ég held að við séum bæði sammála því. Ég held að það séu mörg tækifæri í grænni skattlagningu. Ég held að við eigum að vera óhrædd við að beita grænni skattlagningu til að stýra ákveðinni hegðun sem er minna umhverfisvæn en önnur og í þeim tilgangi að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Ég heyri að hv. þm. Bergþór Ólason er mér sammála um að flugfargjöld hafi verið of lág undanfarin ár. Það tek ég bara til mín sem vitni um það að hann er velviljaður því að skoða einhvers konar stýringu í opinberum gjöldum í átt til grænni vegar.